Íslensk skip veiddu 111 þúsund tonn af ýsu á nýliðnu fiskveiðiári. Aðeins einu sinni áður hefur veiðst meira af ýsu á Íslandsmiðum, en það var árið 1962. Þá var heildarýsuaflinn 118 þúsund tonn og erlend skip veiddu meira en helming aflans eða 64 þúsund tonn. Ýsuafli íslenskra skipa 1962 var 54 þúsund tonn.
Afli fiskveiðiársins 2007/2008 var samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu 1.253.375 tonn sem er tæplega 167 þúsund tonnum minni afli en fiskveiðiárið 2006/2007. Þá var heildaraflinn 1.420.205 tonn. Munar þar mest 53 þúsund tonna samdrátt í botnfiskafla, 77 þúsund tonnum minni kolmunnaafla og 159 þúsund tonna samdrátt í loðnuafla. Á móti kemur 71 þúsund tonna aukning makrílafla og meiri síldarafli.
Síldarafli ársins var rúmlega 367 þúsund tonn sem setur það í hóp mestu síldarára.
Heildaraflinn í nýliðnum ágúst var 141.996 tonn. Það er rúmlega 52 þúsund tonna aukning í afla milli ára en aflinn í ágúst 2007 var 89.943 tonn.
Í fyrra fór fyrst að bera á makríl í afla íslenskra skipa. Í nýliðnum ágúst veiddust 40.349 tonn af markíl en aflinn var 14.266 tonn í ágúst í fyrra. Sumarið gaf 107 þúsund tonn af makríl á tímabilinu júní - ágúst sem er meira en 70 þúsund tonna aukning frá fyrra ári.
62.074 tonn af norsk-íslenskri síld var landað í ágúst 2008. Það er tvöfalt meiri síldarafli en á sama tíma í fyrra.