Verð á hráolíu hefur lækkað í dag þrátt fyrir auknar áhyggjur af því að fellibylurinn Ike geti valdið usla á olíuvinnslustöðvum í Mexíkóflóa. Verð á hráolíu til afhendingar í október hefur lækkað um 88 sent í dag og er 101,70 dalir tunnan í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York. Í gær lækkaði verð á hráolíu um 68 sent tunnan í viðskiptum á NYMEX markaðnum. Var lokaverð á hráolíu 102,58 dalir tunnan og hefur ekki verið lægra síðan 1. apríl sl.
Í Lundúnum hefur verð á Brent Norðursjávarolíu til afhendingar í október lækkað um 62 sent tunnan og er 98,35 dalir.