Stýrivextir áfram 15,5%

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum, 15,5%. Er það í takt við væntingar markaðarins en samkvæmt spá Seðlabankans frá því í júlí er gert ráð fyrir að stýrivextir haldist óbreyttir fram á fyrsta ársfjórðung 2009.

Seðlabankinn hækkaði síðast stýrivexti um 0,50 prósentur í apríl í 15,5% og hafa vextir verið hækkaðir um alls 1,75 prósentur á árinu. 

Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 6. nóvember, á útgáfudegi Peningamála. Bankastjórnin mun rökstyðja vaxtaákvörðun sína nú á fundi með fjölmiðlum klukkan 11.

Gengi krónu hefur lækkað um 6% frá síðustu vaxtaákvörðun

Bloomberg birti spár sex greinenda um vaxtaákvörðun Seðlabankans og gerðu þeir allir ráð fyrir að stýrivextir haldist óbreyttir.

Í Vegvísi Landsbankans í gær kom fram að verðbólga hefur síðan í júlí verið töluvert yfir spá Seðlabankans en verðbólga á ársgrundvelli mælist nú 14,5%. Greiningardeild Landsbankans reiknar með að verðbólga hafi náð hámarki í ágúst og geti lækkað hratt þegar líður á haustið.

Í Morgunkorni Glitnis í gær kemur fram að frá því Seðlabankinn birti verðbólguspá sína í júlí hefur gengi krónu lækkað um 6% og verðbólga reynst lífseigari síðustu mánuði en bankinn reiknaði með. „Verðbólga síðastliðinna 12 mánaða mældist 14,5% í síðasta mánuði og hefur ekki verið meiri í 18 ár.

Á móti vegur að vísbendingar eru um að hraðar hafi dregið úr vexti einkaneyslu en Seðlabankinn spáði og ber merki þess á húsnæðismarkaði, í kortaveltutölum, væntingum neytenda og nýskráningum fólksbifreiða svo nokkuð sé nefnt,” að því er sagði í Morgunkorni Glitnis.

Útilokuðu ekki vaxtahækkun

Greiningardeild Kaupþings sagði í Hálf fimm fréttum í gær að ekki væri hægt að útiloka vaxtahækkun í dag til að undirstrika þá ætlun Seðlabankans að ná verðbólgu niður þrátt fyrir mikinn stríðskostnað.

 „Á hinn bóginn myndi stýrivaxtahækkun nú hafa takmörkuð áhrif á verðbólgu til skamms tíma þar sem talið er að a.m.k. 6-12 mánaða töf sé á leiðni peningamálastefnunnar yfir í raunhagkerfið. Raunar gæti hækkun vaxta nú haft þveröfug áhrif og grafið enn frekar undan gengi krónunnar og útlitinu fyrir hagkerfið í heild sinni – svo ekki sé minnst á fjármálalegan stöðugleika.

 Því er ávallt þörf á framsýni þegar stýrivextir eru ákvarðaðir og ljóst að tölur um landsframleiðslu og einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi – sem birtast á sama tíma -  geta skipt miklu máli fyrir framhaldið.

Flest bendir til þess að kólnun muni mælast í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi og að landsframleiðsla dragist saman þrátt fyrir að sveiflur geti verið miklar milli ársfjórðunga. Þá verður að benda á að flestir hagvísar á þriðja ársfjórðungi benda sömuleiðis til þess að kólnun hagkerfisins verði hröð á þeim fjórðungi og nægir þar að nefna minnkandi innflutning á neysluvörum og vaxandi svartsýni neytenda. Flest bendir því til að talsverð ládeyða muni ríkja í efnahagslífinu á næstu árum og munu háir stýrivextir til of langs tíma valda jafnvel vel stæðum fyrirtækjum og heimilum óþarfa búsifjum,” að því er sagði í Hálf fimm fréttum Kaupþings í gær.

Greiningardeild Kaupþings segir að verðbólga á Íslandi hafi löngum verið nátengd gengisveikingu íslensku krónunnar. Því komi ekki á óvart að verðbólga mælist í hæstu hæðum þar sem nafngengi krónunnar er sögulega lágt eftir nánast stanslaust lækkunarferli frá áramótum.

„Ljóst er að verðbólgan mun áfram ráðast af gengi krónunnar og þegar myntin loksins nær festu, jafnvel þótt sú festa sé kringum sögulega lágt gildi, er fátt í efnahagslífinu sem er líklegt til að kynda verðbólgubálið á næstu misserum og árum. Raunar er fátt sem styður stýrivaxtahækkun nema einna helst að undirstrika trúverðugleika Seðlabankans.
Því gerir Greiningardeild ráð fyrir óbreyttum stýrivöxtum fram á 1. ársfjórðung næsta árs og teljum við að Seðlabankinn muni við útgáfu Peningamála í nóvember leggja drög að lækkun vaxta,”  sagði í Hálf fimm fréttum Kaupþings í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka