Hlutabréf Eimskipafélagsins hafa lækkað um 6,8% í Kauphöll Íslands í dag en tilkynnt hefur verið um að lánaábyrgð vegna XL Leisure, sem hefur verið lýst gjaldþrota, falli á félagið. Um er að ræða ábyrgð upp á 26 milljarða króna. Hópur fjárfesta, meðal annars Björgólfsfeðga, hefur lýst sig reiðubúna að kaupa kröfuna. Straumur hefur lækkað um 3,2% og Landsbankinn um 1,6%.
Líkt og greint hefur verið frá eru fjölmargir farþegar á vegum XL Leisure strandaglóðar víða um heim vegna gjaldþrots félagsins. Einungis er um að ræða farþega á vegum félagsins í Bretlandi en samkvæmt erlendum fjölmiðlum er starfsemi félagsins óröskuð í Frakklandi og Þýskalandi en samkomulag hefur náðst um að Straumur eignist starfsemi XL í Þýskalandi og Frakklandi. Hins vegar nemur áhætta Straums af kröfum á hendur XL um 45 milljónum evra, 5,7 milljörðum króna. Á þessu stigi er ekki ljóst að hvaða marki þetta fé verður endurheimt.
XL Leisure var í eigu Eimskipafélags Íslands en haustið 2006 keyptu stjórnendur XL Leisure félagið. Eimskip gekkst í lánaábyrgð upp á 207 milljónir evra í tengslum við kaupin.
XL Leisure er þriðja stærsta ferðaþjónustufyrirtæki Bretlands og á fréttavef Sky í morgun kemur fram að gjaldþrotið sé það stærsta í þessum geira í rúma tvo áratug. Tap XL Leisure á síðasta rekstrarári nam 24 milljónum punda, 3,8 milljörðum króna.
Phil Wyatt , varaformaður stjórnar XL, tók við starfi forstjóra XL í júní sl. er Peter Owen lét af störfum.
Úrvalsvísitalan er eina norræna hlutabréfavísitalan sem hefur lækkað í dag en vísitalan hefur lækkað um 1,17% frá því viðskipti hófust klukkan 10 í morgun. Einungis eitt félag hefur hækkað í verði í kauphöllinni, Færeyjabanki um 0,3%.Í Ósló hefur vísitalan hækkað um 2,41%, Kaupmannahöfn 0,83%, Stokkhólmur 1,26% og Helsinki 1,23%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur hækkað um 1,58%.