„Það verður að viðurkennast að það er stórt og mikið áfall fyrir Eimskip að þurfa að taka á þessum skelli sem gjaldþrot XL Leisure Group er,“ sagði Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips í gær.
Eimskip lækkaði um 21% í kauphöllinni í gær og hefur verðmæti félagsins rýrnað um 77% frá janúar.
Áhrifin af gjaldþroti breska ferðaþjónustufyrirtækisins eru víðtæk. Eimskip þarf að taka á sig 26 milljarða króna lán, andvirði 207 milljóna evra, sem félagið ábyrgðist við söluna á XL seint á árinu 2006.
Þá getur Straumur fjárfestingarbanki tapað 45 milljónum evra, tæpum 6 milljörðum króna miðað við gengi gærdagsins, vegna gjaldþrotsins. Bankinn yfirtekur rekstur XL í Frakklandi og Þýskalandi og óvíst er hvaða verðmæti nást upp í tapið.
Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson útvega lánið til Eimskips ásamt fleiri ónafngreindum fjárfestum. Það verður víkjandi sem þýðir að fyrst verður staðið við skuldbindingar við aðra lánardrottna. Það er mikilvægt til að skapa ekki óróleika hjá þeim enda Eimskip mikið skuldsett.
Ekki er búið að ákveða hvort lánið verði með breytirétti í hlutabréf samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Bent er á að það þurfi samþykki hluthafafundar til að svo verði. Í ljósi þess að Björgólfsfeðgar ráða í raun yfir Eimskipi, bæði í gegnum Landsbankann og beina eignaraðild, er ekki flókið mál að afla þess samþykkis. Hins vegar er útfærslan á láninu ekki fullmótuð ennþá. Yfirlýsingin um aðkomu feðganna í fyrradag var drifin út til að róa lánardrottna þegar stjórnendur sáu í hvað stefndi með XL.
Ekki er heldur ljóst á hvaða kjörum þetta lán verður. Gylfi Sigfússon sagði það skýrast fljótlega.
„Gjaldþrot XL mun ekki hafa áhrif á rekstur og starfsemi Icelandair Travel Service eða önnur félög undir Icelandair,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Gjaldþrot XL gæti haft í för með sér að gerð verði krafa um staðgreiðslu á aðföngum eins og eldsneyti. thorbjorn@mbl.is
Sala á Atlas Versacold er mikilvæg til að greiða niður miklar skuldir og lækka vaxtakostnað. Eigendur eru taldir heppnir ef Versacold verður selt án mikils taps.
Mikilvægt er fyrir hluthafa að upplýst verði fyrirkomulag á aðkomu Björgólfsfeðga. Það á við kjör á láni uppá 26 milljarða króna og hvort því verði á ákveðnum tímapunkti breytt í hlutafé.