Hlutabréf lækkuðu mikið í verði í kauphöllinni á Wall Street í kvöld. Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði um rúm 500 stig eða 4,42% og er 10.917 stig. Er þetta mesta lækkun vísitölunnar á einum degi frá 17. september 2001, fyrsta viðskiptadeginum eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin.
Fjárfestar brugðust illa við umróti á fjármálamarkaði sem leitt hefur til þess að tveir af þekktustu fjárfestingarbönkum Bandaríkjanna, Lehman Brothers og Merrill Lynch eru að hverfa af sjónarsviðinu.
Gengi bréfa tryggingafélagsins AIG lækkaði um 61% í dag en félagið hefur óskað eftir 40 milljarða dala neyðarláni frá bandaríska seðlabankanum.
NASDAQ hlutabréfavísitalan lækkaði um 3,6% í dag og er 2179 stig. S&P vísitalan lækkaði um 4,69% og er 1192 stig, en vísitalan hefur ekki farið undir 1200 stig í þrjú ár.