„Fyrir flesta fjárfesta og bankamenn um gjörvallan heim mun dagurinn í dag snúast um að þrauka og lifa af.“
Þetta eru niðurlagsorð pistlahöfundarins Roberts Preston á BBC-vefnum sem segist jafnframt ekki muna aðra eins helgi og þá síðustu þann aldarfjórðung sem hann hefur verið í viðskiptablaðamennsku. Í Wall Street hafi helgin líklega verið sú sögulegasta frá því seinnihluta þriðja áratugarins, þ.e. upphafsárum kreppunnar miklu.
Hinn sögulegi tími sem Preston vitnar til er auðvitað flótti Lehman Brothers, fjórða stærsta fjárfestingarbanka Bandaríkjanna, bak við 11. grein gjaldþrotalaganna til að skýla sér fyrir kröfuhöfum, kaup hins öfluga Bank of America á næst berskjaldaðasta fjárfestingarbankanum, Merrill Lynch, brakið í stoðum stærsta tryggingarfélags heims, AIG, sem leitar nú eftir 40 milljarða dollara brúarláni frá bandaríska seðlabankanum og ýmsar þær aðgerðir sem seðlabankinn hefur þurft að grípa til í því skyni að lágmarka alla þá upplausn sem þessar hræringar munu óhjákvæmilega hafa á öllum fjármálamörkuðum. Að ógleymdum 70 milljarða dollara sjóðnum sem tíu helstu bankastofnanir heims hafa sammælst um að koma upp til að hindra fjárþurrð markaðarins á næstu tvísýnu klukkustundunum, ekki síst eftir að markaðurinn í New York opnar fljótlega upp úr hádegi.
Hrun í dag eða á næstu dögum?
Það er næstum hrollvekjandi að lesa aðra dálkahöfunda fjölmiðlanna, svo sem hinn virta hagfræðing Paul Krugman í The New York Times.
„Mun bandaríska fjármálakerfið hrynja í dag, eða á næstu fáeinum dögum,“ spyr hann í upphafi pistils síns. „Ég held ekki - en ég er engan veginn viss. Þið sjáið, Lehman Brothers, meiriháttar fjárfestingarbanki, virðist vera að hrynja. Og enginn veit hvað gerist næst.“
Krugman segir að til að skilja vandann verði menn að hafa í huga að hinn gamli heimur bankastarfseminnar, þar sem stofnanirnar tóku við innlánum viðskiptavina og lánuðu áfram til annarra langtímaviðskiptavina, sé meira og minna horfinn og við tekið það sem sé yfirleitt kallað „skugga-bankakerfið“. Innlánsbankarnir með „náungunum í marmarahöllunum“ séu nú í aukahlutverki í því að veita fjármunum frá sparifjáreigendum til lántakenda, mest af fjármálastarfseminni fari fram í gegnum flókna samninga sem annars konar lánastofnanir véla um, svo sem Bear Stearns sem lagði í reynd upp laupana á dögunum - og Lehman.
Krugman segir að nýja kerfið hafi átt að standa betur að vígi við að dreifa og draga úr áhættunni. Í kjölfar hrunsins á húsnæðismarkaðinum og lánsfjárkreppunnar hafi komið á daginn að áhætta var ekki minni heldur betur dulin sem þýði að alltof margir fjárfestar hafi enga hugmynd um hversu berskjaldaðir þeir eru við þessar aðstæður.
Fjármálaheimurinn nú standi þó ekki frammi fyrir gamaldags bankahruni með örvæntingarúttektum sparifjáreigenda heldur einkennist ástandið nú af símhringingaröldu og ótölulegum músaklikkum meðan menn reyna að bjarga því sem bjargað verður. Efnahagslegu áhrifin - frysting lánsfjár og verðfall eigna - séu þau sömu og í bankakrísunni miklu.
Og það er annað atriði, segir Krugman. Varnirnar sem settar hafa verið upp til að koma í veg fyrir að bankakrísan mikla endurtaki sig, aðallega með innlánstryggingum og aðgangi að lánalínum hjá seðlabanka, nýtast fyrst og fremst „náungunum í marmarahöllunum“ eins og Krugman orðar það, þ.e. hefðbundnu innlánsstofnunum, sem eru ekki kjarni krísunnar á fjármálamarkaðinum í dag. Það skapar raunverulegan mörguleika á því, segir hann, að 2008 geti orðið endurtekning á 1931.
Þá er eins gott að spenna beltin.