Helstu hlutabréfavísitölur hafa hrunið í dag eftir að fregnir bárust af greiðslustöðvun Lehman Brothers í Bandaríkjunum. Í Kauphöll Íslands hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 3,41% og er vísitalan nú 3.831,09 stig. Eimskip hefur lækkað um 18,75% og Exista um 5,23%. Atlantic Petroleum hefur lækkað um 5,19% og Bakkavör um 4,94%. Ekkert félag hefur hækkað í verði það sem af er degi.
Gengi krónunnar hefur lækakð um 2%. Gengisvísitalan er nú 170,90 stig en var 167,40 stig við upphaf viðskipta. Gengi Bandaríkjadals er 91,87 krónur, pundið er 163,47 krónur og evran er 129,75 krónur.
Í Lundúnum nemur lækkun FTSE vísitölunnar 4,68%, í Frankfurt hefur DAX lækkað um 4,22% og í París hefur CAC lækkað um 5,51%.
Í Ósló hefur hlutabréfavísitalan lækkað um 6,56%, Stokkhólmi 3,71%, Kaupmannahöfn 3,89% og Helsinki 3,63%. Samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur lækkað um 3,99%.
Fara yfir í öruggari fjárfestingu
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að skuldabréfmarkaðurinn bregst sterkt við hræringum á fjármálamörkuðum í dag og má lesa tilfærslu fjárfesta yfir í meira öryggi og auknar verðbólguvæntingar úr hreyfingum á markaðinum.
„Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hefur lækkað mikið í dag eða um 6-15 punkta. Krafa á ríkisbréfum er hins vegar nær óbreytt. Væntingar um aukna verðbólgu og tilfærsla yfir í aukið öryggi er eflaust að togast á um ríkisbréfin sem skýrir litla breytingu á kröfu þeirra. Áhrif af þessu tvennu vega hins vegar bæði í sömu átt með íbúðabréfin sem skýrir mikla kröfulækkun þeirra. Velta á skuldabréfamarkaði hefur hins vegar ekki verið mikil á fyrsta klukkutíma viðskipta í dag," að því er segir í Morgunkorni.
Við fall Lehman flúði annar gamalgróinn banki, Merrill Lynch, í faðm Bank of America sem hefur samþykkt að yfirtaka Merrill fyrir um 50 milljarða Bandaríkjadala. Bank of America mun borga 29 dali á hlut í Merrill sem er 70% yfir dagslokaverði á föstudaginn. Merrill hefur hrapað í verði um 80% á þessu ári eftir að hafa tapað og afskrifað yfir 52 milljarða dala vegna verðbréfa með veð í húsnæðislánum.
Yfirtakan bindur enda á 94 ára sjálfstæði bankans. Fréttunum er almennt nokkuð vel tekið af sérfræðingum og álitsgjöfum, enda slá þær á ótta manna við dómínóáhrif af gjaldþroti Lehman. Merrill var af flestum talinn næstur í röðinni á eftir Lehman af bandarísku fjárfestingabökunum stóru hvað hættu á gjaldþroti varðaði, en nú hefur þessi hætta minnkað mikið þar sem staða Bank of America hefur haldist býsna sterk í sviptingum undanfarins árs, að því er segir í Morgunkorni Glitnis.
Og þá voru eftir tveir
Eftir yfirtöku Bank of America verða aðeins tveir eftir af hinum fimm stóru fjárfestingabönkum sem ráðið hafa lögum og lofum á Wall Street undanfarin ár, Morgan Stanley og Goldman Sachs.
Bear Stearns féll fyrstur í vor og hefur nú að mestu runnið saman við
móðurbanka sinn, JP Morgan. Lehman Brothers verður svo tekinn til
gjaldþrotaskipta og Merrill rennur saman við Bank of America. Raunar er
ekki ljóst enn hversu víðtæk sameining síðastnefndu fyrirtækjanna
tveggja verður og kann vel að fara svo að Merrill Lynch verði áfram
rekið sem nokkuð sjálfstæður fjárfestingabankaarmur Bank of America,
a.m.k. að nafninu til.
„Staða Morgan Stanley og Goldman Sachs
er talsvert önnur en hinna fjárfestingabankanna þriggja, enda hafa þeir
skilað hagnaði undanfarið ár og orðið fyrir mun minni skakkaföllum
vegna skuldabréfavafninga en föllnu fjárfestingabankarnir þrír. Þróunin
undanfarna mánuði vekur þó spurningar um það viðskiptalíkan sem tíðkast
hefur vestra að hafa fjárfestingabankastarfsemi aðskilda frá
viðskiptabönkum. Þannig vitnar Bloomberg í hagfræðinginn Nouriel
Roubini, sem spáði réttilega fyrir um tímasetningu og umfang
lánsfjárkrískunnar, en Roubini telur að það gangi ekki upp að hafa
slíkan aðskilnað því fjárfestingabankastarfsemi sé nauðsynlegt að hafa
þann bakstuðning sem felst í innlánum og lánveitanda til þrautavara," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.