Helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu hafa lækkað umtalsvert í dag eftir að tilkynnt var um að bandaríski fjárfestingabankinn Lehman Brothers hefði farið fram á greiðslustöðvun, undanfara gjaldþrots. Helstu seðlabankar Evrópu hafa ákveðið að veita ódýru lánsfé inn á peningamarkaði í dag til þess að koma í veg fyrir hrun á mörkuðum.
Í Kauphöllinni í Lundúnum hefur FTSE vísitalan lækkað um 3,54% og eru það einkum fjármálafyrirtæki sem hafa lækkað í verði. Má þar nefna að Hbos bankinn hefur lækkað um 19,24%, Royal Bank of Scotland um 11,89% og Barclays bankinn um 10,63%.
Úrvalsvísitalan lækkar um 2,38%
Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2,38% frá því viðskipti hófust klukkan tíu í morgun. Exista hefur lækkað um 4%, Straumur 3,87% og Landsbankinn um 3,17%. Ekkert félag hefur hækkað í verði.
Ósló lækkar um 5,12%
Í Ósló hefur hlutabréfavísitalan lækkað um 5,12%, Kaupmannahöfn 2,76%, Stokkhólmur og Helsinki 3,42% og samnorræna vísitalan Nordic 40 hefur lækkað um 3,61%.
Í Frankfurt nemur lækkun DAX vísitölunnar 3,40% og CAC vísitalan í París hefur lækkað um 4,37%.
En Lehman Brothers er ekki eina bandaríska fjármálafyrirtækið sem hefur verið í eldlínunni um helgina því stjórn Merrill Lynch ákvað í gær að taka yfirtökutilboði Bank of America.
Á gjaldeyrismörkuðum hefur Bandaríkjadalur lækkað gagnvart helstu gjaldmiðlum, þar á meðal evru, jeni og pundi. Á Íslandi hefur gengi krónunnar lækkað um rúm 1,60% og er Bandaríkjadalur nú 90,77 krónur þannig að gengi dalsins hefur ekki lækkað gagnvart krónu.
Yfirtökuviðræðum Lehman Brothers við breska Barclays bankann og Bank of America var slitið í gær en bandarísk yfirvöld voru ekki reiðubúin að veita væntanlegum kaupendum tryggingar sem þeir töldu nauðsynlegar ef yfirtakan ætti að verða að veruleika.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að Lehman hefur tapað um 95% af markaðsvirði sínu á þessu ári og forstjóri bankans frá árinu 1969, Richard Fuld, sem gerði hann að stærsta endurtryggjanda verðbréfa með veð í húsnæðislánum í Bandaríkjunum, hefur þar með lotið í lægra haldi fyrir lánakrísunni.
„Fall Lehman Brothers gefur skýr skilaboð um að bankar geti ekki gengið að því vísu að verða bjargað af yfirvöldum þegar í harðbakkann slær og marka endalok bankans því kaflaskil í þeirri krísu sem hrjáð hefur fjármálamarkaði heimsins undanfarið ár.
Bandaríski seðlabankinn hefur hins vegar tilkynnt að veðreglur fyrir útlán hans verði víkkaðar og mun hann meðal annars samþykkja hlutabréf sem veð. Tíu stærstu bankar Bandaríkjanna hafa auk þess tilkynnt um stofnun sérstaks lausafjársjóðs sem verður 70 ma. dollara að stærð. Er ætlunin að hver þeirra um sig geti gripið til allt að þriðjungs af þessari upphæð ef til tímabundinna lausafjárvandræða kemur," að því er fram kemur í Morgunkorni Glitnis.