Warren Buffett kallaði afleiðurnar tímasprengju

Eru afleiðurnar undirrót markaðshrunsins?
Eru afleiðurnar undirrót markaðshrunsins? Reuters

Nú þegar rykið er að falla eftir moldviðrið á fjármálamörkuðum heimsins í gær, eru sérfræðingar og fréttaskýrendur í óða önn að leita uppi blóraböggla ástandsins. Eðlilega beina menn mjög sjónum að stóru fjárfestingarbönkunum í Bandaríkjunum og starfsháttum þeirra enda hefur þeim í umrótinu á mörkuðunum undanfarið fækkað í tvo, Goldman Sach sem sagt er að standi best þessara tegundar banka, og Morgan Stanley. Horfnir eru með einum eða öðrum hætti á fáeinum dögum, Merrill Lynch inn í Bank of America, Bear Stearns gleyptur af JP Morgan fyrir frumkvæði bandaríska seðlabankans og Lehman Brothers gjaldþrota.

Þess vegna verða þær spurningar æ háværari hvort að tími þessarar tegundar bankastarfsemi sé liðinn og hún hljóti í framtíðinni að fara fram í skjóli öflugra viðskiptabanka. Á sinn hátt gengur þetta öndvert á umræðuna sem hefur verið hér á landi - að skilja þurfi á milli fjárfestingarstarfsemi og annarrar bankastarfsemi viðskiptabankanna.

Því verður ekki á móti mælt að á síðasta röskum áratug eða svo hafa fjárfestingabankar verið í fararbroddi í alls kyns nýjungum í bankastarfsemi og eitt helsta tæki þeirra til að ryðja nýjar brautir hafa verið afleiðuviðskipti. Nú eru það afleiðurnar sem menn benda á og segja: Þetta er sökudólgurinn! Sem er kannski ekki að undra. Afleiðurnar eru fyrirferðamiklar í vafningunum alræmdu sem undirmálslánunum á bandaríska fjármálamarkaðinum var einatt pakkað inn í ásamt öðrum afleiðufyrirbærum, í eðli sínu afar flókin fyrirbæri, lítt gagnsæ og mjög snúin í uppgjörum, jafnvel svo flókin að því hefur verið haldið fram að þeir sem fundu afleiðurnar upp skilji þær ekki einu sinni sjálfir.

Fyrirbærið afleiða

Samkvæmt því sem segir á Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu á netinu, eru afleiður aðallega ferns konar - þ.e. framtíðarsamningar (futures) í stöðluðu formi á skipulögðum markaði, framvirkir samningar (forwards), þ.e. framvirkir óskráðir samningar milli tveggja aðila, oftast banka.og ekki skráðir á skipulögðum markaði, vilnanir eða valréttur (options) og loks skiptasamningar (swaps). Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, skilgreinir afleiður í svari á Vísindavefnum með eftirfarandi hætti:

„Afleiður (e. derivatives) eru mjög víður flokkur verðbréfa sem öll hafa það sameiginlegt að greiðsluskylda útgefanda og þar með verðmæti afleiðanna fer eftir verðþróun annarrar eignar (hugsanlega margra). Nafnið vísar því til þess að verðmæti afleiðanna leiðir af verðþróun annarra eigna. Þær eignir sem afleiðurnar eru leiddar af eru kallaðar undirliggjandi eignir. “

Gylfi segir lítil takmörk á hverju afleiður geta byggt. Undirliggjandi eignir þurfi til dæmis ekki að vera fjármálaeignir. Þannig sé hægt að eiga viðskipti með afleiður með hrávörur eins og ál eða olíu sem undirliggjandi eignir. Til dæmis geti afleiða kveðið á um rétt til að kaupa tiltekið magn af áli á tilteknu verði á tilteknum degi eða tímabili.

Eftir gærdaginn hafa margir gagnrýnendur afleiðuviðskiptanna bent á grein sem fjárfestirinn kunni, Warren Buffett, skrifaði í fréttabréf til hluthafa fyrirtækis síns, Berkshire, árið 2002, fimm árum fyrir undirmálslánahrunið, þar sem hann varaði mjög við afleiðunum og margir telja nú orðið að áhrínsorðum. Í greininni segir Buffett fyrirtækið vera mjög á varðbergi gagnvart hvers kyns „meiriháttar hamfara“ áhættu og nefnir síðan afleiðurnar sérstaklega og fylgifiska þeirra. „Að okkar mati, hvað sem öðru líður, eru afleiður fjármálalegt vopn til gjöreyðingar, með í sér fólgna banvæna hættu, þó dulin sé núna."

Tímasprengjan

Paul B. Farrel sérfræðingur hjá fjármálavefnum Market Watch, rifjar þetta upp þegar í mars sl. Hann segir Buffett horfa þarna til framtíðar sem margir aðrir hafi kosið að virða að vettugi. Buffett var e.t.v. reynslunni ríkari eftir yfirtöku Berkshire á tryggingafélaginu General Re. fjórum árum áður en vogunarsjóðurinn Long-Term Capital Management fór á hliðina og hafði næstum dregið fjármálakerfi heims með sér í fallinu. En með General Re. fylgdi í kaupunum Gen Re. afleiðufyrirtæki sem Buffett reyndi að losa sig við. Það reyndust bara engir kaupendur. Að vinda ofan af fyrirtækinu kostaði óhemju fjármuni og þarna hefur Buffett sennilega sannfærst um að ekki var allt sem sýndist þegar afleiðurnar voru annars vegar.

„Að loka afleiðustarfseminni er hægara sagt en gert, " segir hann í þessu fréttabréfi. Það muni taka langan tíma þó að fyrirtæki vinni í því að minnka áhættuna dag frá degi. „Staðreyndin er að endurtryggingar og afleiður eru svipaðar: Eins og með Helvíti, þá er auðvelt að komast þar inn en eiginlega ómögulegt að komast út aftur.“

Það er ekki að undra að Buffett felli síðan þennan dóm yfir afleiðunum: „Við lítum á þær sem tímasprengjur, bæði fyrir þá aðila sem skipta með þær og efnahagskerfið.“

Paul B. Farrel hjá Market Watch minnir á að Wall Street hafi ekki tekið mark á orðum Buffett frekar en oft áður. Afleiðubólan hafi á þessum tíma vaxið úr 100 billjónum dala í 516 billjónir dala á síðasta ári.

Hann lætur ekki hér við sitja: „Staðreyndin er að afleiðurnar eru orðnar að stærsta „svarta markaði“ heims." Stærri en ólögleg sala með vopn, eiturlyf, alkóhól, tóbak, fjárhættuspil, stolna listmuni og sjóræningjakvikmyndir.

Og hann vitnar síðan í sjóðakónginn Bill Gross hjá Pimco sem sagði nýlega: „Það sem við erum að verða vitni að er í aðalatriðum hrun á bankakerfi samtímans, flækja skuldsetningarlána sem er svo erfitt að skilja að Bern Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, þurfti maður- á-mann upprifjunarfund hjá vogunarsjóðstjórum nú um miðjan ágúst."

Sem sagt - segir Farrell - það er ekki aðeins Warren Buffett heldur sjóðakóngurinn Bill Gross, seðlabankastjórinn Bern Bernanke, fjarmálaráðherrann Henry Paulson og aðrir leiðtogar þjóðarinnar sem fá engan botn í þessar afleiður heims upp á 516 biljónir dala.

Breytt form bankastarfsemi

Fleiri beina augunum að fjármálakerfi heimsins og hvort umrótið nú tákni að breytingar séu framundan. Einn þeirra er Larry Elliot, viðskiptaritstjóri The Guardian, sem segir það hafi tekið yfirvöld í Bandaríkjunum langan tíma að horfast í augu við að eitthvað væri bogið við það líkan fjármálakerfis heims sem þróast hafi áratuginn fram að ágúst 2007, með sinni áherslu á útbelgdar lántökur, safn meira og minna óskiljanlegra afleiðna og meinta áhættudreifingu.

„Fyrir suma okkar er augljóst að þetta líkan er svo brostið að ekki tekur að gera við það, og að nú er þörf á að hverfa aftur til hefðbundnara forms bankastarfsemi. Sú staðreynd að nú skuli talað um þörfina á nýjum Glass-Steagall lögum - löggjöfin frá fjórða áratugnum sem kvað á um að bandarískar bankastofnanir yrðu að vera annað hvort viðskiptabankar eða fjárfestingabankar en ekki hvort tveggja - er til marks um að heimurinn breytist."

Öllum má vera ljóst að í kjölfar alls þessa umróts sem fjármálakerfið hefur gengið í gegnum síðustu daga og misseri þá fer nú í hönd naflaskoðun svo um munar. Kannski verður niðurstaða hennar að loks verður hlustað á Warren Buffett, farsælasta fjárfesti okkar tíma.

Skilgreining vísindavefjar HÍ á afleiðu

Fréttabréf Berkshire Hathaway um afleiður

Warren Buffett.
Warren Buffett. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka