Verð á hráolíu hélt áfram að lækka í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York í morgun og voru síðustu viðskipti á 92,12 dali tunnan sem er lækkun upp á 3,59 dali frá því í gærkvöldi. Hráolíuverð fór lægst í 91,54 dali tunnan í morgun en margir óttast að efnahagsástandið eigi enn eftir að versna eftir fall Lehman Brothers í gær. Það þýði að eftirspurn eftir olíu dregst saman.
37% lækkun frá 11. júlí
Verð á hráolíu til afhendingar í október lækkaði um 5,47 dali tunnan á NYMEX í gær og var lokaverðið 95,71 dalur tunnan. Er það í fyrsta skipti frá því 4. mars sem lokaverð á hráolíu fer undir 100 dali tunnan á NYMEX. Verð á hráolíu hefur lækkað um 55 dali tunnan eða 37% frá því það náði hámarki í 147,27 dölum þann 11. júlí sl.
Í Lundúnum hefur verð á Brent Norðursjávarolíu lækkað um 1,63 dali tunnan í morgun og er 90,70 dalir tunnan.