Sem fyrr eru þrengingar á erlendum hlutabréfa- og fjármagnsmörkuðum ein helst ástæða veikingar krónunnar undanfarna daga, að áliti greiningardeildar Kaupþings. Krónan veiktist um 2,48% í dag og hefur gengisvísitala krónunnar aldrei verið jafn há og nú en því meira sem vísitalan hækkar þá veikist gengi krónunnar að sama skapi.
Áhrifin ytra birtast einna helst í því að krónuvextir á gjaldmiðlaskiptamarkaði hafa lækkað verulega á síðustu dögum og þar með gert krónuna að verðminni eign. Einnig má benda á að hávaxtamyntir hvívetna gáfu eftir í dag og veiktist t.a.m. brasilíska realið um 2,7% gagnvart evru, að því er fram kemur í Hálf fimm fréttum Kaupþings.
Þrengingar á erlendum mörkuðum eru ekki einskorðaðar við Ísland. T.a.m. lokaðist norski gjaldeyrismarkaðurinn um tíma í gær þar sem eftirspurn eftir dollurum í skiptum fyrir norskar krónum þurrkaði upp allan erlendan gjaldeyri.
Norski seðlabankinn brást þó við þessum aðstæðum með því að dæla inn lausafé í dollurum til að ró kæmist á hlutina og markaðurinn komst aftur í samt horf. Ástæðuna má rekja til þess að gríðarleg eftirspurn er eftir bandaríska dalnum þessa dagana. T.a.m. fóru daglánavextir í dollar yfir 10% í gær en til glöggvunar eru stýrivextir einungis 2% í Bandaríkjunum og við „eðlilegar“ aðstæður eru daglánavextir u.þ.b. 0,1% yfir stýrivöxtum Því er kannski ekki skrýtið að bankar um víða veröld haldi að sér höndum og sanki að sér lausafé á meðan mestu þrengingarnar ganga yfir.
Erfitt er að sjá fyrir sér að krónan styrkist kröftuglega á meðan erlendir markaðir eru í jafn mikilli krísu og raun ber vitni. Á meðan fjármögnun hvívetna heldur áfram að vera erfið munu vaxtamunarviðskipti sömuleiðis eiga undir högg að sækja þar sem erfiðara er að taka lán í jenum og svissneskum franka til að fjármagna kaup í hávaxtaríkjum.
Ef horft er fram á veginn er ljóst að krónan er langt frá jafnvægisgildi sínu og er um verulegt yfirskot að ræða. T.a.m. er raungengi nálægt lágmarki og vöruskiptajöfnuður yrði verulega jákvæður við núverandi gildi krónunnar. Þó kann biðin að verða nokkur þar til jafnvægi næst sérstaklega þar sem ekki virðast öll kurl komin til grafar á erlendum mörkuðum þar sem bankar og önnur félög riða til falls," að því er segir í Hálf fimm fréttum greiningardeildar Kaupþings.