Björgunarhringur dugar skammt

Þrátt fyrir að bandaríska ríkið hafi gert sitt til að bjarga tryggingarisanum AIG þá virðist það hafa haft lítil áhrif á fjárfesta og þann ótta sem ríkir á fjármálamörkuðum víða um heim. Það sem af er degi hefur Dow Jones vísitalan lækkað um 3,16%, Nasdaq 4,10% og S&P um 3,97%.

Tilkynnt var um 85 milljarða Bandaríkjadala lán til tveggja ára frá Seðlabanka Bandaríkjanna til American International Group tryggingafyrirtækisins í nótt en ríkissjóður eignast 80% hlut í félaginu við björgunina sem hindrar þannig stærsta gjaldþrot sögunnar. Skuldir félagsins nema um 960 milljörðum Bandaríkjadala.

Telja sérfræðingar að þrátt fyrir þetta dugi það ekki til þess að koma í veg fyrir að hlutabréf haldi áfram að falla í verði. Til að mynda hafa bandarísku fjármálafyrirtækin Goldman Sachs og Morgan Stanley lækkað umtalsvert í verði, það fyrrnefnda um rúm 40% og það síðarnefnda um rúm 20%.

Í Lundúnum lækkaði FTSE vísitalan um 2,2%, í París lækkaði Cac um 2,1% og í Frankfurt nam lækkun Dax 1,7%.

AIG er þriðja fyrirtækið til að verða þjóðnýtt upp á síðkastið en húsnæðislánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac var bjargað frá falli fyrir tæpum tveimur vikum síðan. Þannig má lauslega áætla að skuldir bandaríska ríkisins hafi aukist um 2.500 milljarða dollara á þessu tímabili en þær voru um 8.300 milljarðar dollara fyrir, að því er fram kemur í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

„Þjóðnýting AIG mun að öllum líkindum hafa svipuð óbein áhrif og fall Lehman Brothers og yfirtaka bandaríska ríkisins á Fannie Mae og Freddie Mac þ.e. vantraust fjárfesta mun aukast. Erlendir lánsfjármarkaðir munu síst verða aðgengilegri og gildir það jafnt fyrir íslenska fyrirtæki sem önnur.

Raunar er vantraustið orðið slíkt að sumir hagfræðingar í Bandaríkjunum eru byrjaðir að óttast að hinn opinberi tryggingasjóður innistæðna þarlendis gæti tæmst fari svo að gjaldþrotahrina banka þar í landi haldi áfram en ellefu bandarískir viðskiptabankar hafa farið á hausinn frá áramótum," að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK