Greining Glitnis reiknar með því að enginn hagvöxtur verði í ár og á næsta ári en muni síðan taka vel við sér árið 2010 og verða 3,6% það ár. Spenna sú sem myndast hefur í innlendu efnahagslífi mun hverfa á þessum tíma. Verðbólga mun fara niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans og viðskiptahallinn hjaðna og komast í viðunandi hlutfall af landsframleiðslu. Samhliða mun Seðlabankinn lækka stýrivexti sína nokkuð hratt, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Greiningar Glitnis.
Spáin var kynnt á fjölmennum fundi á Hilton Nordica í dag.
Hagvöxtur á ný árið 2010
Þar kemur fram að hagvöxtur ætti að taka vel við sér á árinu 2010 þegar efnahagsumhverfið verður hagstæðara að öllu leyti. Lánsfjárkreppan er þá að líkindum liðin hjá, hagvöxtur á heimsvísu farinn að taka við sér á ný, aflaheimildir vaxandi, fjárfesting í stóriðju í sókn og þróun hrávöruverðs hagstæðari. Stöðugleikinn verður þá einnig kominn á að nýju en í honum felst góður grundvöllur hagvaxtar. Reiknar Greining Glitnis með 3,6% hagvexti árið 2010 og 4,3% hagvexti árið 2011.
Margar andvökunætur
Lárus Welding, forstjóri Glitnis, sagði á fundinum að staða efnahagsmála skýri þá góðu mætingu sem er á kynningarfundinum. Segir hann að nú séu áhugaverðir tímar og hann muni ekki til þess að hafa áður vakað jafn margar nætur í röð til þess að fylgjast með fréttum.
Segir hann ljóst að miklir fjármunir hafi tapast og tugir þúsunda misst vinnuna. Segir hann að Glitnir hafi staðið við það sem bankinn hafi ætlað sér. Lárus segir það lykilatriði fyrir íslenskar fjármálastofnanir að einblína á reksturinn og nú ríði á að samstaða ríki á markaði.
Að sögn Lárusar á Ísland óþrjótandi auðlindir í formi sjávarafurða og endurnýtanlegrar orku ef rétt er haldið á spöðunum.
Hann segir vextina sem nú eru vera óviðunandi bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga og ekki verði lengi búið við slíkar aðstæður.