Mestu viðskiptainngrip sögunnar

Bandarískir fjölmiðlar gera því skóna í dag, að aðgerðir bandaríska seðlabankans til að bjarga tryggingafélaginu AIG frá gjaldþroti kunni að vera fyrirboði þess að  fleiri slíkra aðgerða sé að vænta. Blaðið New York Times segir að um sé að ræða róttækustu viðskiptainngrip í sögu seðlabankans.

Seðlabankinn veitti AIG 85 milljarða dala neyðarlán en á móti kemur að bandaríska ríkið eignast 79,9% af hlutabréf tryggingafélagsins. 

„Þessi björgun á væntanlega eftir að verða umdeild vegna þess að með henni er verið að hætta fé skattgreiðenda og jafnframt að verja slæmar fjárfestingar, sem AIG og aðrar stofnanir sem félagið á í viðskiptum við hafa gert," segir New York Times. 

Tímaritið Forbes segir, að AIG, sem er með yfir 1 billjón dala í skráðum eignum, sé greinilega of stórt til að hægt sé að gera það gjaldþrota.

„En seðlabankinn hefur opnað Pandóruöskju með þessum björgunaraðgerðum og sagt í raun, að bandarísk stjórnvöld geti bjargað fyrirtækjum, sem lent hafa í vandræðum vegna slæmra ákvarðana stjórnenda þeirra," segir tímaritið.  

Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, samþykkti neyðarlánið en að sögn blaðsins Wall Street Journal krafðist hann þess, að Robert Willumstad,  forstjóri AIG, hætti störfum tafarlaust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK