Olíuverð hækkaði á ný í viðskiptum í Asíu í morgun eftir mikið verðfall síðustu tvo daga. Tunna af hráolíu hækkaði þannig um 3,26 dali og kostaði 94,41 dal í rafrænum viðskiptum á markaði í New York. Lægst komst verðið í gær í 90,51 dal tunnan og hefur ekki verið lægra síðan í febrúar.
„Verðið hafði í raun hrapað fram af bjargbrún," sagði Peter McGuire, framkvæmdastjóri Commodity Warrants Australia í Sydney. „Þegar verð lækkar á markaði um 25% á þremur vikum og 40% á þremur mánuðum verður venjulega einhver afturbati."
Hæst hefur verð á hráolíu farið í rúma 147 dali tunnan í júlí sl.