Gengi deCode í ölduróti

Kári Stefánsson hringir inn viðskiptadaginn á Nasdaq þegar fimm ár …
Kári Stefánsson hringir inn viðskiptadaginn á Nasdaq þegar fimm ár eru liðin frá skráningu deCode á markaðinum. Miles Ladin

Gengi hlutabréfa í deCODE, móðurfélagi Íslenskrar erfðagreiningar, hefur hrunið í umrótinu á alþjóðlegum mörkuðum síðustu daga. Á mánudag lækkuðu bréfin um nærri 19%, á þriðjudag, um nærri 28% og í gær um 16%, lokagengið var 42 sent. Markaðsvirði deCODE miðað við þetta gengi er tæpir 31 milljónir dala eða jafnvirði 2,9 milljarða króna.

Gengi bréfa deCODE þann liðlega áratug sem fyrirtækið hefur starfað hefur verið sannkölluð rússibanareið, einkanlega þó eftir að bréf fyrirtækisins voru skráð á Nasdaq-markaðinn í New York um mitt ár 2000 þar sem útboðsgengið var 18 dalir á hlut. Fyrsta viðskiptadaginn á Nasdaq fór gengið upp í 31,5 dal á hlut en fór ört lækkandi eftir það. Áður hafði gengi bréfa í deCODE á gráa markaðinum hér heima farið yfir 60 dali.

Yfirreið um greinasafn Morgunblaðsins um gengi deCODE sýnir glöggt sveiflurnar sem fyrirtækið hefur mátt þola.

Nóvember 1996 - Erfðarannsóknarfyrirtækið Íslensk erfðagreining ehf. hefur hafið starfsemi. Stofnendur fyrirtækisins, sem starfar við leit að erfðafræðilegum orsökum sjúkdóma, s.s sykursýki, gigt og asma, eru fjórir Íslendingar og einn Bandaríkjamaður sem saman eiga 52% hlut, þrátt fyrir að einungis brot af stofnfénu komi frá þeim. Aðrir eigendur eru bandarískir fjárfestar sem hafa lagt rúmar átta hundruð milljónir íslenskra króna, 12 milljónir dollara, í fyrirtækið.

September 1997 - Ef Íslensk erfðagreining hf. á áfram að vera í meirihlutaeigu Íslendinga þá verður að koma nýtt íslenskt hlutafé inn í fyrirtækið. Stofnhlutafé Íslenskrar erfðagreiningar eru 12 milljónir dollara, eða 864 milljónir króna. Erlendir áhættufjárfestar sem eiga hlut í fyrirtækinu eru um þessar mundir að ljúka við að greiða sína hluti sem gerir það að verkum að Íslensk erfðagreining verður ekki lengur í meirihlutaeigu Íslendinga.

Nóvember 1997 - Þegar Íslensk erfðagreining tók til starfa 22. nóvember á síðasta ári voru starfsmenn 20 en þeir eru nú 90. Kári Stefánsson segir að meðal nýrra starfsmanna sé fjöldi hámenntaðra íslenskra sérfræðinga sem hafi flust til landsins frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndum. Hann segir árangur rannsókna fyrirtækisins góðan og það sé m.a. að þakka góðri samvinnu við lækna vegna rannsókna á einum 30 sjúkdómum, hæfu starfsfólki og því að Íslendingar séu erfðafræðilega einsleit þjóð. Kári segir vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa staðsett erfðavísa fyrir MS sjúkdóm og psoriasis og að náðst hafi mikill árangur í vinnu við meðgöngueitrun, garnabólgu og sykursýki.

Febrúar 1998 - Fimm ára samstarfssamningur Íslenskrar erfðagreiningar og svissneska lyfjafyrirtækisins Hoffmann- La Roche, sem undirritaður var í byrjun febrúar, hljóðar upp á rúmar 200 milljónir dollara eða hátt í 15 milljarða íslenskra króna. Íslenskri erfðagreiningu er tryggt fjármagn til rannsóknar á 12 sjúkdómum næstu árin og Hoffmann-La Roche fær aðgang að þessum rannsóknum með það markmið að nýta þekkinguna til að finna upp og þróa nýjar aðferðir við greiningu, meðferð og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna þessara sjúkdóma.

Vegna samningsins tvöfaldaði Íslensk erfðagreining starfsmannafjölda sinn, sem við undirritun var rúmlega 100 manns og unnið er að þreföldun húsnæðis og fjórföldun tækjakosts. Við undirritunina kom fram að Hoffmann-La Roche samþykkti að öll lyf sem kunna að vera þróuð á grundvelli samstarfsins verði gefin íslenskum sjúklingum án endurgjalds.

Júní 1999 - Samkomulag hefur náðst um kaup Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans, Búnaðarbankans og eignarhaldsfélagsins Hofs á hlutabréfum í DeCODE Genetics, eignarhaldsfélagi Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE), af bandarískum stofnfjárfestum fyrir rúma sex milljarða króna.

Ætlunin er að selja bréfin áfram í áföngum innanlands.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá ÍE að með þessum kaupum hafi Íslendingar eignast tæplega 70% hlut í deCODE. Um er að ræða kaup á nær helmings eignarhlut bandarísku fjárfestingarsjóðanna, sem lögðu upphaflega 12 milljónir dollara eða um 850 milljónir ísl. kr. í stofnun DeCODE og var eignarhlutur þeirra þá 48,5%.

Júlí 1999 - Kaup Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbankans og Búnaðarbankans á 17% hlut í deCODE Genetics  sýna svo ekki verður um villst að í ÍE liggur eitt magnaðasta viðskiptatækifæri sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir. Það er ekki nóg með að fyrirtækið hafi flutt til landsins fjölda vísindastarfa og sérþekkingu. Það er að ryðja brautina fyrir íslensk þekkingarfyrirtæki til að afla fjár til starfsemi sinnar erlendis. ÍE er að notfæra sér nýuppgötvaðar auðlindir og beitir markaðsöflunum til að virkja þær. Á sama tíma er fyrirtækið orðið umræddasta og jafnframt eitt umdeildasta fyrirtæki landsins. Miðað við kaupgengi bankanna þriggja er félagið orðið það verðmætasta á landinu, með markaðsverðmæti upp á 500 milljónir bandaríkjadala, eða 37 milljarða íslenskra króna. Greiningarmenn og sérfræðingar þessara þriggja banka hljóta að hafa orðið sáttir við þetta mat eftir ýtarlega skoðun. Bankar geta ekki leyft sér að nota svo stóran hluta eigin fjár síns til hlutabréfakaupa, nema vera alveg vissir í sinni sök.

Það er ekki að furða þótt aðrir fjárfestar séu áhugasamir. Verkefni þeirra er þó afar erfitt, því um nýtt svið er að ræða sem krefst mikillar yfirlegu. Spákaupmenn hugsa nú væntanlega mest um það hvernig fari með skráningu fyrirtækisins á erlendum markaði, en langtímafjárfestar huga að erfðatæknigreininni sem fyrirtækið starfar í og stöðu þess innan hennar.

Júní 1999 - Fjárfestingarbanki atvinnulífsins, Landsbankinn og Búnaðarbankinn hafa lokið sölu á um 45% þeirra hlutabréfa sem bankarnir keyptu í síðustu viku í deCODE Genetics. Í fréttatilkynningu frá bönkunum í gær kemur fram að áhugi á bréfunum hafi verið mikill og sé búið að selja öll þau bréf sem gert var ráð fyrir að endurselja í þessum áfanga.

Innlendum fagfjárfestum var eingöngu boðið að kaupa hlutabréfin og gat hver og einn keypt fyrir að lágmarki 50 milljónir kr. Tekið er fram í tilkynningu bankanna að fjárfestar hafi fengið ítarlegar upplýsingar um rekstur ÍE, fjárhagslega stöðu og framtíðarsýn fyrirtækisins, enda séu slíkar upplýsingar forsenda þess að fjárfestar geti lagt mat á verð og áhættu fjárfestingarinnar. Bankarnir keyptu hlutabréfin í deCODE fyrir rúma 6 milljarða kr. en ekki hefur verið gefið upp hvert söluverð hlutabréfanna var til íslensku fagfjárfestanna.

Janúar 2000 - Ekkert lát virðist ætla að verða á hækkun hlutabréfa í deCODE. Á um það bil viku hefur gengi þeirra hækkað úr 43 dollurum í rúmlega 50 dollara á hlut. Í upphafi síðasta árs var gengi þeirra innan við 20 og hefur því hækkað um ríflega 150% á einu ári.

Ýmsir aðilar á markaði hrista höfuðið yfir þessum miklu hækkunum á deCODE enda erfitt að festa hendur á hvað veldur þeim. Helstu ástæður sem nefndar eru eru að gengi líftæknifyrirtækja á bandarískum hlutabréfamarkaði hækkaði mikið síðasta mánuð ársins 1999. Á síðasta ári hækkaði Nasdaq-hlutabréfavísitalan um tæplega 90% en langflest líftæknifyrirtæki eru skráð á Nasdaq-markaðinn í New York. Aftur á móti hefur Nasdaq-vísitalan lækkað umtalsvert síðustu tvo daga en þrátt fyrir það hefur gengi deCode haldið áfram að hækka á gráa markaðnum hér á Íslandi.

Önnur skýring sem nefnd hefur verið er að það styttist óðum í skráningu deCODE á Nasdaq.

Gengið fór hæst í 65  fyrsta viðskiptadaginn eftir að tilkynnt var um rekstrarleyfi Íslenskrar erfðagreiningar til starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði.

Júlí 2000 - Viðskipti hefjast með hlutabréf í deCODE genetics Inc. á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum á Wall Street í Bandaríkjunum. Útboðsgengi fyrir skráningu var 18 dalir á bréf og var margföld eftirspurn eftir þeim 8 milljónum bréfa sem í upphafi átti að bjóða og var útboðið stækkað í 9,6 milljónir bréfa. Sé miðað við þann fjölda af bréfum þá koma tæpir 13 milljarðar króna í hlut deCODE við útboðið en kostnaður vegna útboðsins nemur 7% af útboðsgenginu. Heimild er fyrir aukningu til viðbótar á bilinu ein til tvær milljónir bréfa. Verði þau bréf boðin út þá koma rúmlega 14 milljarðar króna í hlut deCODE.

Viðskipti á Nasdaq hófust á genginu 29,5 og fóru þau hæst í 31,5 og lægst í 24,75. Lokagengi var 25,4375 og er það rúmlega 40% hækkun frá útboðsgengi. Alls voru viðskipti með 13.374.400 bréf í deCODE á Nasdaq. Fjöldi hlutabréfa í félaginu er eftir útboð rúmlega 40 milljónir og miðað við lokaverð þessa fyrsta dags  er markaðsvirðið tæpir 90 milljarðar íslenskra króna.

Október 2000 - deCODE genetics fer í fyrsta sinn frá útboði félagsins undir 20 dali á hlut á Nasdaq markaðnum í Bandaríkjunum. Lokagengi 16. þ.m. var 19,625, sem er 6,55% lækkun frá fyrra degi er lokagengi var 21.

Janúar 2001 - Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, segir í setningarræðu á landsþingi flokksins að fjármálafyrirtæki eins og Landsbankinn hefðu tekið deCODE genetics upp á arma sína, og síðan „narrað vankunnandi Íslendinga til að kaupa hluti í félaginu á allt að sexföldu verði eins og nú er komið á daginn. Þúsundir manna standa höndum uppi vegna þeirrar svikamyllu. En fjármálajöfrarnir ganga nú sem óðast að þessu auðtrúa fólki og hirða bréf nú aftur fyrir smánarverð og veðsettar eignir manna og munu vafalaust kalla gróða sinn þegar fram í sækir“.

Apríl 2001 - deCODE genetics hefur lækkað mikið frá því félagið var skráð á markað í júlí í fyrra. Gengi félagsins í frumútboði (IPO) var 18 Bandaríkjadalir en við lok fyrsta viðskiptadags á Nasdaq-hlutabréfamarkaðnum var það komið upp í 25,44 dali. Hæst fór það í 31,50 dali þann dag.

Næstu vikur á eftir sveiflaðist gengi bréfanna töluvert en hæst náði lokagildið 28,75 dölum 11. september í fyrra. Síðan hefur gengi bréfanna látið undan síga , en með nokkrum sveiflum þó. Hinn 4. apríl var lokagengi deCODE komið niður í 5,5 dali, sem er lægsta gengi á bréfum félagsins til þessa og var lækkunin nú ær 9,3%. Þetta verð þýðir að bréf félagsins hafa lækkað um rúm 78% frá lokum fyrsta dags félagsins á Nasdaq. Á sama tíma hefur Nasdaq-vísitalan lækkað um 60%, Nasdaq-líftæknivísitalan um 48% og úrvalsvísitala Verðbréfaþings Íslands um 27%.

Maí  2001 - Verð hlutabréfa í deCODE Genetics  fór yfir 8 dollara á Nasdaq í gær og hefur ekki verið hærra um tveggja mánaða skeið. Lokagengi bréfanna var 8,08 dollarar og nam hækkunin rúmum 8% frá deginum áður. Lægst fór gengið í 5,28 dollara á dögunum.

Júní 2001 - Gengi deCODE hækkaði um 42,3% eftir mikil viðskipti með bréf í fyrirtækinu á bandaríska Nasdaq-verðbréfamarkaðinum í gær.  Bréfin hækkuðu um 3,66 dali á hlut og var lokagengi bréfanna 12,31 dalur á hlut. Talsverðar sveiflur hafa verið á gengi fyrirtækisins undanfarna mánuði. Féll gengi bréfanna umtalsvert fyrri hluta þessa árs en hefur verið á uppleið að undanförnu. Þetta er mesta hækkun bréfanna um langt skeið.

September 2001 - Íslensk erfðagreining segir  upp 200 af 650 starfsmönnum fyrirtækisins eða nær þriðjungi starfsmanna sinna og tóku uppsagnirnar gildi þegar í stað. Jafnframt kynnti deCODE þriggja ára samstarfssamning sem gerður hefur verið við lyfjafyrirtækið Merck & Co., Inc. um rannsókn á erfðafræði offitu með það að markmiði að flýta uppgötvun nýrra lyfja gegn offitu. Kunna greiðslur til félagsins að nema allt að 90 milljónum dala, eða um 7,8 milljörðum króna, skv. fréttatilkynningu sem félagið sendi frá sér.

Nóvermber 2001- Fjárfestingabankinn Robertson Stephens í Bandaríkjunum mælir með kaupum á hlutabréfum í deCODE í nýrri matsskýrslu á fyrirtækinu. Bankinn telur að verðgildi hlutabréfa deCODE muni aukast verulega á næstunni. Á næstu 12 til 18 mánuðum verði verðgildi á hlut um 15 Bandaríkjadalir og að fyrirtækið verði þá sambærilegt við fyrirtækið Exelixis. Eftir tvö til þrjú ár verði deCODE meira í líkingu við fyrirtækin Curagen, Myriad og jafnvel Celera og að verð á hlut í deCODE verði þá á bilinu 25-35 dalir.

Júní 2002 - Gengi hlutabréfa deCODE  endar annan daginn í röð í lægsta gildi frá upphafi á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinum. Lokagildi bréfanna lækkaði um 4,62% frá fimmtudegi og endaði í 3,72 Bandaríkjadölum. Gengið fór um tíma í 3,50 dali en það er lægsta verð sem greitt hefur verið fyrir bréfin frá því þau voru skráð á Wall Street fyrir tveimur árum. Á einni viku lækkaði gengi deCODE um 99 sent, eða um 21%, en gengið var 4,71 dalur í lok síðustu viku.

September 2002 - Hlutabréf í deCODE Genetics lækkuðu um 10,63%  og var lokagengið það lægsta síðan bréfin voru skráð á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn í Bandaríkjunum árið 2000, á útboðsgenginu 18 dalir. Lokagengið var 1,85 dalir en var daginn áður 2,09 dalir á hlut. Þetta er í annað skipti sem verð hlutabréfa í deCODE fer niður fyrir tvo dali á hlut en það gerðist fyrst í byrjun september sl.

Janúar 2003 - JP Morgan mælir með kaupum á hlutabréfum í deCODE. Telur verðbréfafyrirtækið að eðlilegt gengi hlutabréfa félagsins sé á bilinu 4-5 Bandaríkjadalir en það hefur verið í kringum 2 dalir að undanförnu. Þetta kemur í kjölfar tilkynningar frá Íslenskri erfðagreiningu um að ákveðnum áfanga hafi verið náð í lyfjaþróun hjá félaginu. JP Morgan hefur vegna þessa breytt ráðgjöf sinni varðandi hlutabréf deCODE og mælir nú með kaupum á hlutabréfunum í stað hlutlausrar ráðgjafar áður.

Gengi hlutabréfa deCODE á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinum í New York hækkaði um 41,43% í gær í kjölfar birtingar skýrslunnar. Gengi bréfanna nú er því nálægt 3 dölum.


Febrúar 2004 - Gengi  hlutabréfa deCODE lækkar um 7,9% í gær og var lokagengi bréfanna 12,16 dalir. Lækkunin kemur í kjölfar 24,5% hækkunar fáeinum dögum áður , en sú hækkun varð eftir að upplýst hafði verið um samstarfssamning deCODE og lyfjafyrirtækisins Merck og kaupa Merck á hlutabréfum í deCODE á genginu 14,50.

Mars 2005 - Afkoma deCODE Genetics á síðasta ári var neikvæð um 57,3 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar tæplega 3,5 milljörðum króna. Afkoma félagsins árið 2003 var neikvæð um 35,1 milljón Bandaríkjadala, 2,1 milljarða króna, og hefur tapið því aukist um rúma 1,4 milljarða króna.

Ástæður þess eru, samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu, aukinn rannsóknar- og þróunarkostnaður vegna lyfjaþróunarverkefna félagsins, samdráttur í tekjum, gjöld vegna breytanlegra viðskiptabréfa félagsins sem gefin voru út í apríl 2004 auk innleysts og óinnleysts gjaldeyristaps.

Tekjur deCODE á síðasta ári voru 42,1 milljón Bandaríkjadala, 2,6 milljarðar króna, en voru 46,8 milljónir dala, 2,8 milljarðar króna árið áður. Samkvæmt fréttatilkynningunni skýrist þetta af því að félagið leggur nú meiri áherslu á lyfjaþróun en áður og er því meiri áhersla lögð á langtímatekjustreymi en skammtímatekjustreymi.

Júlí 2005 - Kári  Stefánsson, forstjóri deCODE, er fenginn til að opna fyrir viðskipti á Nasdaq-markaðnum bandaríska í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá skráningu deCODE Genetics.  Hlutabréf í deCODE voru upphaflega, hinn 17. júlí 2000, skráð á útboðsgenginu 18 dollarar á hlut en daginn eftir var opnunarverðið 28,5 dollarar. Opnunarverð viðskipta í gær var 9,91 dollar.

„Þetta hefur að mörgu leyti verið býsna erfiður tími,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri deCODE, í samtali við Morgunblaðið eftir opnun markaðarins. „Frá árinu 2000 hefur hátæknimarkaður í heiminum almennt gengið í gegnum erfiða tíma. Við lögðumst til sunds í félagsskap hinna stóru á þessum markaði og höfum borið okkur saman við þá. Þegar manni er ögrað á þann hátt þá verður maður að leggja sig allan fram.“

Janúar 2006 - Gengi hlutabréfa deCODE, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, hækkar um 6,6% á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinum í New York. Lokaverð bréfanna var 10,0 dollarar á hlut. Verðið hefur ekki verið jafnhátt síðan í september á síðasta ári, en þá náði það einmitt 10,0 dollurum.

Mikil umfjöllun hefur verið í erlendum fjölmiðlum um deCODE, eftir að upplýst var um síðustu helgi, að vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hefðu fundið erfðabreytileika sem hefur áhrif á hættuna á að fólk fái sykursýki 2. Sá sjúkdómur herjar einkum á fullorðið fólk. Í Vegvísi greiningardeildar Landsbanka Íslands segir að ljóst megi vera að fjárfestar telji uppgötvun félagsins nokkuð merkilega, með hliðsjón af því hvað gengi hlutabréfa deCODE hækkaði mikið á hlutabréfamarkaðinum.

Mars 2006 - Gengi bréfa deCODE  lækkar um 7,74% á Nasdaq-verðbréfamarkaðnum í New York 8. þ.m. og er skráð 8,70 dalir við lok viðskipta. Félagið birti uppgjör fyrir árið 2005 eftir lokun markaða á mánudagskvöld og kom þar fram að tap á rekstri hefur aukist og samsvaraði rúmum 4 milljörðum króna á síðasta ári.

Nóvember 2006 - Gengi hlutabréfa deCODE lækkaði um tæp 8% hinn 9. nóvember síðastliðinn á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinum í New York. Þetta var daginn eftir að níu mánaða uppgjör félagsins var birt. Síðan þá hefur gengið lækkað um 11% til viðbótar og var í lok viðskipta í fyrradag 4,40 dollarar á hlut. Gengið hlutabréfa deCODE var um 8,4 dollarar á síðustu áramótum og hefur því lækkað um nærri helming síðan þá. Tap af rekstri deCODE á fyrstu níu mánuðum þessa árs nam liðlega 62 milljónum Bandaríkjadollara, eða liðlega 4 milljörðum íslenskra króna, sem var umtalsvert meira tap en á sama tímabili í fyrra.

Mars 2007 - Afkoma deCODE á síðasta ári var neikvæð um 85,5 milljónir Bandaríkjadollara. Það svarar til um 5,8 milljarða íslenskra króna á núverandi gengi. Þetta er nokkuð verri afkoma en á árinu 2005, en þá var tap félagsins 62,8 milljónir dollara. Árið þar áður var tap félagsins 57,3 milljónir dollara.  Í tilkynningu frá félaginu segir að aukið tap á síðasta ári skýrist af fjárfestingum í lyfjarannsóknum og þróun. Rannsóknar- og þróunarkostnaður félagsins jókst milli áranna 2005 og 2006 úr 43,7 milljónum dollara í 57,1 milljón. Handbært fé deCODE í árslok 2006 var 152 milljónir dollara, eða um 10,4 milljarðar króna. Árið áður var handbært fé félagsins 155,6 milljónir dollara.

Ef tap deCODE á þessu og næsta ári verður svipað og í fyrra verður handbært fé félagsins uppurið fyrir árslok 2008, að öðru óbreyttu. Tekjur deCODE drógust nokkuð saman á milli áranna 2005 og 2006. Þær námu 44,0 milljónum dollara á árinu 2005 en 40,5 milljónum í fyrra, en það jafngildir um 2,8 milljörðum íslenskra króna.

Mars 2007 - Kári Stefánsson segir að þeir útreikningar séu „rangir og byggist á vanþekkingu“ sem gefa til kynna að eigið fé deCODE, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, verði uppurið fyrir árslok 2008. DeCODE hefur aldrei haft á sínum snærum útreikninga sem gefa neitt slíkt til kynna. Kári segir þessa alhæfingu byggjast á sama grunni eins og fullyrt væri að Landsvirkjun tapaði 200 milljónum króna á Kárahnjúkum.

Í þau tíu og hálft ár sem fyrirtækið hefur verið starfrækt hefur fjárhagsstaða þess aldrei verið betri að sögn Kára. Telur hann jafnframt að fjárstaða fyrirtækisins sé betri en 90% þeirra fyrirtækja sem starfa í líftæknigeiranum. Taka verði tillit til þess að deCODE er að fjárfesta í vöruþróun sem tekur að meðaltali 15 ár. Engu máli skiptir hvort litið er til Bandaríkjanna, Evrópu eða Íslands, líftækni í heiminum snýst um það að fjárfesta til lengri tíma. Spyrja verður að leikslokum um niðurstöðuna.

Mars 2007 - Bandaríska greiningarfyrirtækið Piper Jaffrey lækkar verðmat sitt á deCODE. Fyrirtækið metur verð hlutabréfa félagsins á 5 dollara á hlut auk þess sem það hækkar markaðshorfur í yfirvogun. Verðið á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinum hefur verið undir 4 dollurum að undanförnu. Í skýrslu Piper Jaffrey segir að von sé á töluverðum tíðindum frá deCODE á næstunni. Þau gefi tilefni til hækkunar á verðmati hlutabréfa þess.

Nóvember 2007 - Gengi bréfa deCODE snarhækkar á Nasdaq-verðbréfamarkaðinum vestur í Bandaríkjunum eða um nálega 19% og stendur gengi bréfa félagsins nú í 3,6 dölum á hlut. Fyrirtækið tilkynnir að það ætlaði að bjóða almenningi gegn greiðslu áskrift að upplýsingum um erfðamengi sitt, meðal annars með tilliti til þeirra erfðaþátta sem vitað er að auka eða minnka líkur á algengum sjúkdómum.

Þannig eiga menn að geta fengið upplýsingar um hvort þeir hafi tiltekna erfðaeiginleika sem tengdir hafa verið aukinni áhættu á tilteknum sjúkdómum. Nýjar uppgötvanir deCODE á þessu sviði verða síðan færðar jafnharðan inn og verða þannig áskrifendum aðgengilegar.

Mars 2008 - Tap af rekstri deCode Genetics eykst um 10 milljónir dala á milli ára samkvæmt afkomutilkynningu fyrir síðasta ár. Alls nam tap árins 95,5 milljónum dala í fyrra en 85,5 milljónum dala árið 2006. Samkvæmt tilkynningunni drógust tekjur félagsins saman um 100 þúsund dali á milli ára og námu þær á síðasta ári 40,4 milljónum dala en heildarrekstrarkostnaður ársins nam 128 milljónum dala. Þegar við bætist hreinn vaxtakostnaður upp á um 9 milljónir dala fæst niðurstaðan, 95,5 milljónir.

Í tilkynningunni er haft eftir Kára Stefánssyni að deCode hafi á árinu náð góðum árangri í skammtíma- og langtímastefnu sinni sem gengur út á að hagnast á leiðandi stöðu fyrirtækisins á sviði erfðafræði mannsins. Það hafi markaðssett greiningarpróf vegna ýmissra erfðasjúkdóma og verið fyrst á markað með erfðagreiningarpróf, deCODEme.

Júní 2008 -  Gengi hlutabréfa deCode Genetics hækkar um 22,22% í Nasdaq-kauphöllinni í New York 23. þ.m. Við lokun markaðar var gengi félagsins 1,65 dalir á hlut sem er 30 senta hækkun á milli daga. Að sama skapi voru mjög mikil viðskipti með bréf félagsins en alls skiptu tæplega 1,2 milljónir hluta um hendur. Svo mikil hafa viðskiptin ekki verið í a.m.k. eitt ár. Gengi deCode hefur ekki verið jafnhátt síðan 9. maí sl. en þá var það 1,67 dalir á hlut við lok viðskipta.

Ekki er ljóst hvað veldur þessari miklu hækkun og þessum miklu viðskiptum en þess ber að geta að fjallað var um erfðarannsóknir á Íslandi á NBC-sjónvarpsstöðinni bandarísku undanfarna tvo daga. Íslensk erfðagreining var í aðalhlutverki í þeirri umfjöllun.

September 2008 - Gengi hlutabréfa deCODE hefur hrunið á bandaríska Nasdaq-markaðnum það sem af er vikunni. Í byrjun vikunnar lækkuðu bréfin um nærri 19% og 16. þ.m. um 27,54%. Þá var gengi þeirra orðið aðeins 50 sent og hafði aldrei verið lægra. Bréf deCODE voru skráð á Nasdaq í júlí árið 2000 að undangengnu útboði þar sem útboðsgengi var 18 dalir á hlut. Fyrsta daginn á Nasdaq fór gengið upp í 31,5 dali.

mbl.is/Kristinn
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka