Gjaldþrot virðist blasa við ítalska flugfélaginu Alitalia eftir að fyrirtækjahópur, sem áformaði að yfirtaka félagið, hætti við. Ítalskar fréttastofur segja að fyrirtækin hafi hætt við vegna þess að verkalýðsfélög féllust ekki á yfirtökuáætlunina, sem hefði þýtt að 3250 störf töpuðust.
Verkalýðsfélögin níu fengu frest til klukkan 16 að íslenskum tíma í dag en þá hefur fyrirtækjasamsteypan CIA boðað fund. Fjölmiðlar segja, að formenn þriggja félaga hafi samþykkt yfirtökuáætlunina en hin sex, þar á meðal verkalýðsfélag flugmanna, kröfðust frekari viðræðna.