Heildarkrafa íslensku bankanna á Lehman 25 milljarðar króna

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið mbl.is/Eyþór

Krafa íslensku viðskiptabankanna Lehman Brothers Holding og tengdra félaga nemur samtals 182,6 milljónum evra, rúmlega 24,8 milljörðum króna, að því er fram kemur í frétt á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins í dag. 

Fréttin kemur í kjölfar þess að fyrr í dag sendi Straumur út frétt um kröfur sínar á Lehman þar sem fram kemur að í heildina nemi því krafa Straums á Lehman Brothers Holding og tengdum félögum 94 milljónum evra, 12,7 milljörðum króna.

Sett í samhengi þá nemi þessi fjárhæð 1,5% af heildareignum Straums og 6% af eigin fé bankans. Ekki liggi fyrir hvenær eða hvernig verður farið með kröfur á hendur félaginu og getur Straumur ekki sem stendur lagt mat á hve mikið bankinn þarf að afskrifa vegna þessa.

Í frétt Fjármálaeftirlitsins segir orðrétt:

„Vegna frétta af gjaldþroti bandaríska fjárfestingarbankans Lehman Brothers og mögulegra áhrifa á fjármálakerfi víða um heim, þ.m.t. á Íslandi vill Fjármálaeftirlitið upplýsa um eftirfarandi:

Samkvæmt upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið hefur aflað frá viðskiptabönkunum er samtala brúttó krafna þeirra á Lehman Brothers og tengda aðila samtals 182,6 milljónir evra eða sem samsvarar 1,8% af heildareiginfjárgrunni bankanna. Um er að ræða nánast eingöngu skuldabréfakröfur eða ígildi þeirra (senior debt) en ekki áhættu í formi hlutabréfa eða víkjandi krafna. Þá er vakin athygli á því að kröfurnar eru að nokkru leyti á félög sem ekki eru í greiðslustöðvun en tengjast Lehman Brothers. Vænta má þess að hluti framangreindra krafna innheimtist.

Með hliðsjón af lágu hlutfalli af eiginfjárgrunni teljast þessar áhættur ekki áhyggjuefni fyrir fjármálakerfið á Íslandi. Íslenskir bankar hafa ekki sérstöðu í þessu sambandi þar sem flestir stærri erlendir bankar hafa upplýst um kröfur á Lehman Brother.“

Samkvæmt útleggingu Hálf fimm frétta Kaupþings í gær  liggja því 88,6 milljónir evra af þessum 182,6 milljónum hjá Glitni, Kaupþingi, Landsbankanum og Icebank. Sú upphæð nemi einungis 1,4% af samanlögðu eigin fé þeirra og hefur því óveruleg áhrif á starfsemi þeirra dreifist áfallið jafnt meðal þeirra fjögurra.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK