Nýsi hf. barst í dag tilboð frá Landsbankanum og Kaupþingi í allar eignir félagsins. Segir Nýsir í tilkynningu til Kauphallar Íslands, að ef tilboðunum verði tekið munu þau hafa veruleg áhrif á efnahagsreikning félagsins.
Félagið mun meta tilboðin og kynna þau síðan fyrir kröfuhöfum þar með talið kröfuhöfum þeirra verðbréfa sem tekin hafa verið til viðskipta í Kauphöllinni. Félagið mun því seinka birtingu á árshlutareikningi á meðan viðræður um tilboðin fara fram.
Unnið hefur verið að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins undanfarna mánuði og vikur. Hefur komið fram að endurfjármagna þurfi sjö til tíu milljarða af skammtímalánum félagsins á þessu ári svo rekstur félagsins geti gengið áfram.
Landsbankinn er stærsti lánveitandi Nýsis og hefur hann, í samráði við aðra lánveitendur félagsins, leitt vinnu sem miðar að því að bjarga félaginu frá gjaldþroti og lánveitendum þess frá vandræðum vegna þess. Meðal annarra lánveitenda Nýsis eru Glitnir, Kaupþing og Aareal Bank sem er með höfuðstöðvar í Þýskalandi og var fjárhagslegur bakhjarl Nýsis í verkefnum félagsins í Danmörku.