Forstjóri Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, Michael O'Leary segir að mun fleiri evrópsk flugfélög eigi eftir að leggja niður laupana á næstu vikum en undanfarið hafa flugfélögin Zoom, Futura og XL Airways hætt starfsemi vegna greiðslustöðvunar. Eins er útlitið ekki bjart fyrir ítalska flugfélagið Alitalia og stefnir allt í gjaldþrot þess.
„Við teljum að fleiri evrópsk flugfélög eigi eftir að verða gjaldþrota á næstu vikum á sama tíma og sífellt fleiri evrópsk flugfélög sem eru rekin eru með tapi verða uppiskroppa með fé og lánstraust þeirra verður rúið trausti," sagði O'Leary. Hann sagði einnig að ljóst væri að æ fleiri evrópsk flugfélög eigi eftir að sameinast og verða hágjaldaflugfélög. Þau félög sem eigi eftir að leiða þessar breytingar eru British Airways, Air France og Lufthansa.
Hlutabréf í Ryanair hækkuðu talsvert í verði í gær eftir hluthafafund Ryanair í gær þar sem fram kom í máli forstjórans að ekki væri lengur hætta á að Ryanair yrði rekið með tapi á yfirstandandi rekstrarári sem lýkur í mars. Skýringuna er að finna í lækkunum á eldsneytisverði að undanförnu. Að sögn O'Leary miðast nýjar spár um afkomu við að olíuverð haldist áfram undir 100 dölum tunnan.
Hins vegar munu eldsneytisverðlækkanirnar ekki hafa áhrif á afkomu Ryanair um leið þar sem félagið hafi þegar gert framvirka samninga um eldneytiskaup fyrir næsta ársfjórðung og þar sé miðað við að 124 dali á tunnu. Hins vegar sé útlit fyrir að félagið verði rekið með góðum hagnaði árið 2009.
Eftir fundinn hækkuðu hlutabréf Ryanair um 7% í Kauphöllinni í Dyflinni en við lokun höfðu þau lækkað á ný og nam lækkunin 1,6%.