Skattgreiðendur munu þurfa að borga brúsann

Undanfarnar vikur hafa bandarísk stjórnvöld hlaupið undir bagga með illa stöddum fjármálafyrirtækjum með einum eða öðrum hætti og hleypur kostnaðurinn á hundruðum milljarða dala.

Yfirtakan á lánasjóðunum Fannie Mae og Freddie Mac mun kosta ríkið allt að 200 milljörðum dala og yfirtakan á tryggingafélaginu AIG mun kosta 85 milljarða til viðbótar.

Þá sagði Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, á fréttamannafundi í gær að frekari aðgerða yfirvalda sé að vænta og að þær muni kosta hundruð milljarða dala til viðbótar. Koma þær aðgerðir til viðbótar við 145 milljarða dala aðgerðir ríkisstjórnarinnar í upphafi árs og innspýtingar á hundruðum milljarða dala frá seðlabankanum undanfarin misseri.

Er nú svo komið að fjármálaráðuneytið bandaríska taldi rétt að gefa út skuldabréf að andvirði 100 milljarða dala á þriðjudag og miðvikudag til að styrkja sjóði seðlabankans.

Samtals er um að ræða hátt í fimm hundruð milljarða dala hið minnsta. Þessir peningar vaxa ekki á trjánum, frekar en annað fé, og á endanum munu bandarískir skattgreiðendur þurfa að borga brúsann. Spurningin er hins vegar sú hve mikið af áðurnefndu fé er tapað að fullu.

Eitthvað kemur til baka

Gera margir til dæmis ráð fyrir að „fjárfesting“ hins opinbera í AIG muni borga sig á endanum. Er markmiðið að koma tryggingafélaginu aftur á réttan kjöl og selja svo þann 80% hlut sem ríkið fékk í kjölfar aðgerðanna. Óljóst er enn hver áformin eru með Fannie Mae og Freddie Mac, en hugsanlega verður hægt að bjarga einhverjum verðmætum þar.

Hefur í þessu sambandi verið bent á að árið 1979 hafi bandaríska ríkið gengist í ábyrgð fyrir 1,2 milljarða króna láni til Chrysler bílaframleiðandans. Fjórum árum síðar komst fyrirtækið á lappirnar á ný og arður ríkisins af láninu reyndist um 300 milljónir dala.

Burtséð frá því er ljóst að ekki munu öll útgjöld ríkis og seðlabanka verða greidd til baka með þessum hætti. Munu þarlendir skattborgarar þurfa að standa undir þeim, sem og áðurnefndum fjárlagahalla. Hvernig unnið verður úr þeim vanda er hins vegar óljóst enn. Vandasamt verður fyrir stjórnvöld að hækka skatta á fyrirtæki í því árferði sem nú ríkir á mörkuðum. Fjármagnstekjuskattur er nú 15% á eignir sem viðkomandi hefur átt í meira en ár, en skemmri fjármagnseignir eru skattlagðar eins og um venjulegar tekjur sé að ræða. Spurning er því hvort samkeppnisstaða Bandaríkjanna muni skaðast verði þessi skattur hækkaður frekar.

Telja verður hins vegar að almenningur í Bandaríkjunum muni taka því afar illa verði tekjuskattur á einstaklinga hækkaður til að greiða fyrir mistök auðmanna á Wall Street.

Í hnotskurn
» Yfirtakan á Fannie Mae og Freddie Mac mun kosta allt að 200 milljörðum dala.
» Yfirtakan á AIG mun kosta seðlabankann 85 milljarða dala.
» Fjármálaráðuneytið hefur gefið út skuldabréf að andvirði 100 milljarða dala til að styrkja sjóði seðlabankans.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK