Sjeik kaupir 5% í Kaupþingi

Kaupþing banki
Kaupþing banki

Sj­eik Mohammed Bin Khalifa Al-Thani hef­ur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi. Er það fjár­fest­inga­fé­lag í hans eigu sem kaup­ir hlut­inn, alls 37,1 millj­ón bréfa á geng­inu 690 krón­ur á hlut. Kaup­verðið er því 25.599 millj­ón­ir króna. Með kaup­un­um verður hann þriðji stærsti hlut­haf­inn í bank­an­um. Mohammed til­heyr­ir kon­ungs­fjöl­skyld­unni í Qat­ar sem hef­ur verið við völd í land­inu frá ní­undu öld, að því er kem­ur fram á vef Kaupþings.

Fé­lagið sem kaup­ir í Kaupþingi heit­ir  Q Ice­land Fin­ance ehf. og er það að fullu í  eigu Mohammed Bin Khalifa Al-Thania. Er haft eft­ir hon­um í til­kynn­ingu að fylgst hafi verið náið með Kaupþingi í ein­hvern tíma og þeir telji Kaupþing góðan fjár­fest­inga­kost. Staða bank­ans sé sterk og að stjórn­endat­eymi bank­ans og stefna hans hafi staðið sig vel í því öldu­róti sem ein­kenn­ir fjár­mála­markaði nú. Litið sé á fjár­fest­ing­una í Kaupþingi sem lang­tíma fjár­fest­ingu.

Þetta er ekki fyrsta fjár­fest­ing Mohammed Bin Khalifa Al-Thania í ís­lensku fé­lagi en í sum­ar keypti fjár­fest­inga­fé­lag í hans eigu 12,6% hlut í Al­fesca. Þegar til­kynnt var um þau kaup kom fram að sj­eik­inn, sem er bróðir emírs­ins í Kat­ar, sé vin­ur Ólafs Ólafs­son­ar, stjórn­ar­for­manns Al­fesca en þeir hafi stundað veiðar sam­an í Afr­íku.

Ann­ar stærsti hlut­haf­inn í Kaupþingi er Egla með 9,88% hlut. Ólaf­ur Ólafs­son er einn aðal­eig­andi Eglu, fé­lags sem var stofnað í kring­um sölu rík­is­ins á Búnaðarbank­an­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK