Gangi spá greiningardeildar Landsbankans eftir verða fjárfestingar tengdar stóriðju í heild um 440 milljarðar króna á tímabilinu 2008-2012 sem er svipað umfang og á árunum 2004-2007. Grundvallarmunur er hins vegar á þjóðhagslegum áhrifum. Í stað mikilla ruðningsáhrifa mun fjárfestingin nú fylla það skarð sem er að myndast vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar.
Hátt heimsmarkaðsverð orku og veik króna hefur aukið mjög áhuga erlendra aðila á uppbyggingu stóriðju hér á landi. Vöxtur í stóriðjufjárfestingum og opinberum framkvæmdum mun á næstu árum vega upp mikinn samdrátt í íbúðabyggingum og fjárfestingum almennra atvinnuvega. Því verður áfram kraftur í fjárfestingum þrátt fyrir háa innlenda vexti og skertan aðgang að fjármagni. Þetta kemur fram í hagvaxtarspá greiningardeildar Landsbankans sem Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildarinnar, og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, sérfræðingur á greiningardeildinni kynntu á morgunfundi í dag.