Greiningardeild Kaupþings spáir 1,1% hækkun vísitölu neysluverðs

Greiningardeild Kaupþings spáir 1,1% hækkun á vísitölu neysluverðs í september sem þýðir 14,3% hækkun á 12 mánaða tímabili. Áhrif útsöluloka verða til töluverðrar hækkunar auk þess sem áhrif gengisveikingar krónu síðustu mánuði halda áfram að skila sér út í verðlag. Greiningardeildin telur að 12 mánaða verðbólga muni ná hámarki í næstu mælingu í október.

„Líkt og undanfarna mánuði má búast við að verðlagshækkunin dreifist á marga undirliði. Útsölulok á fatnaði og skóm munu orsaka talsverða hækkun milli mánaða, sem Greiningardeild áætlar að verði í grennd við 0,4%.

Einnig má gera ráð fyrir að áhrif hækkandi matvöruverðs muni áfram skila hækkun á VNV.

Sá undirliður VNV sem lýtur að kostnaði við íbúðakaup mun sennilega hafa takmörkuð áhrif að þessu sinni.

Hinsvegar má gera ráð fyrir jákvæðum áhrifum af húsnæðisliðnum í heild eins og í síðasta mánuði en þá höfðu t.a.m. viðhald og viðgerðir mikil áhrif til hækkunar. Eldsneytisverð hefur haldist fremur stöðugt að undanförnu og mun hafa smávægileg áhrif til lækkunar VNV í september að okkar mati," að því er segir í verðbólguspá greiningardeildar Kaupþings.

Að auki má búast má við hárri mánaðarhækkun VNV í október næstkomandi, væntanlega yfir 1%, að því er segir í verðbólguspánni.

„Ástæðan er fyrst og fremst frekari gengisveiking krónunnar síðustu daga og vikur svo og hærri fjármagnskostnaður fyrirtækja. Vísitala neysluverðs hækkar því um 2,4% á næstu tveim mánuðum skv. okkar spá. Hinsvegar má gera ráð fyrir að tólf mánaða verðbólga nái hámarki í október en þá teljum við að hún geti mælst nálægt 15%.

Líklega mun þó taka að hægja á mánaðarhækkunum VNV síðustu tvo mánuði ársins. Að mati greiningardeildar mun snarlega hægja á mánaðarhækkunum VNV þegar gengi krónunnar staðnæmist eða tekur að styrkjast," samkvæmt spá greiningardeildar Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK