Yngvi Örn: Alvarlegasta kreppa sem ég hef upplifað

Undanfarna daga hafa margir verðbréfamiðlarar fagnað því er vinnudeginum lauk
Undanfarna daga hafa margir verðbréfamiðlarar fagnað því er vinnudeginum lauk Reuters

Yngvi Örn Krist­ins­son, fram­kvæmda­stjóri verðbréfa­sviðs Lands­bank­ans, fór í fyr­ir­lestri sín­um á fundi Land­bank­ans í dag yfir ræt­ur krepp­unn­ar sem nú rík­ir og seg­ir að krepp­an nú sé sú al­var­leg­asta sem hann hef­ur upp­lifað. Ekki sé um staðbundna kreppu að ræða held­ur eigi stærstu hag­kerfi heims í vanda.

Að sögn Yngva hef­ur markaðshag­kerfið til­hneig­ingu til að skjóta yfir markið. Á löng­um góðæris­skeiðum efl­ast vænt­ing­ar of mikið og rang­ar fjár­fest­inga­ákv­arðanir eru í vax­andi mæli tekn­ar á þeim grund­velli að góðærið verði enda­laust.

Lág­ir stýri­vext­ir stuðluðu að góðær­inu og lengdu í því

Lág­ir stýri­vext­ir hjá mörg­um lyk­il­seðlabönk­um stuðluðu að góðær­inu og lengdu það. Lág verðbólga, meðal ann­ars vegna nýs fram­boðs frá lönd­um þar sem fram­leiðslu­kostnaður er lág­ur, gerði stýri­vaxta­hækk­an­ir óþarfar. Það hef­ur komið fram að í þeirri löngu upp­sveiflu sem nú er að baki hafi vand­inn verið magnaður þar sem marg­ir helstu seðlabank­ar héldu stýri­vöxt­um lág­um og lengdu í góðær­inu með því. Þess­ir lágu stýri­vext­ir höfðu áhrif til hækk­un­ar á eigna­verði ekki bara á íbúðar­hús­næði held­ur líka á hluta­bréfa­mörkuðum.

Ljóst að for­send­ur voru rang­ar

Í því góðæri sem nú er lokið voru lána­ákv­arðanir vegna íbúðafjár­fest­inga tekn­ar í miklu mæli á þeim grund­velli að verðhækk­an­ir á íbúðar­hús­næði myndu tryggja end­ur­greiðslu íbúðalána.  Van­skila- og taps­lík­ur þess­ara lána voru metn­ar af láns­hæfis­fyr­ir­tækj­um á grund­velli taps­lík­ana á góðær­is­tím­um og því veru­lega van­metn­ar, seg­ir Yngvi Örn.

Af­leiðing­arn­ar eru mik­il aukn­ing á fram­boði hús­næðis og gríðarleg skuld­setn­ing um­fram greiðslu­getu. Að sögn Yngva er aug­ljóst eft­ir á að hyggja að þess­ar for­send­ur voru rang­ar og að lík­ind­um hefði það átt að vera ljóst fyr­ir­fram.

Í krepp­unni nú fer sam­an verðfall á fast­eigna- og hluta­bréfa­mörkuðum í nokkr­um af stærstu hag­kerf­um heims, Banda­ríkj­un­um og á evru-svæðinu.

Útlána­töp met­in á 500-1.000 millj­arða dala

Ný­leg­ar fjár­mála­af­urðir hafa smitað fjár­mála­kerfi í flest­um lönd­um. Yngvi Örn seg­ir að erfitt sé að meta út­lána­töp banka vegna íbúðalána og tengdra af­leiða í heild en þau eru jafn­vel áætluð á bil­inu 500-1.000 millj­arðar Banda­ríkja­dala. Seg­ir Yngvi Örn að laus­legt mat hans sé að um 400 millj­arðar dala töp hafi þegar verið af­skrifuð.

Seg­ir Yngvi Örn að tæp­ast hafi sést vandi af þess­ari stærðargráðu frá ár­inu 1929. Ekk­ert prófað alþjóðlegt ör­ygg­is­net sé til staðar til að glíma við vanda af þessu tagi.

„Nú eru grunn­markaðir í upp­námi, milli­banka­markaðir í Banda­ríkj­un­um og á evru­svæðinu hafa nán­ast verið lokaðir frá því í ág­úst í fyrra fyr­ir alla aðra en allra trygg­ustu fjár­mála­fyr­ir­tæk­in. Vaxta­álög hafa snar­hækkað og fram­boð af láns­fé minnkað og aðgang­ur fjár­mála­fyr­ir­tækja, sem tal­in eru ótrygg, lokast. Al­mennt var talið óhugs­andi að þess­ir markaðir gætu hegðað sér með þess­um hætti í svo lang­an tíma," seg­ir Yngi Örn.

Flest­ir alþjóðleg­ir bank­ar treystu á fjár­mögn­un á þess­um mörkuðum fyr­ir sem svar­ar helm­ing af sínu fjár­magni. Nú­ver­andi vaxta­kjör, það er þau væru virk, gera viðskiptalíkön þess­ara banka óarðbær nú, seg­ir hann.

Bank­arn­ir ber­skjaldaðir

Bank­arn­ir lána, að sögn Yngva Arn­ar, til lengri tíma og fjár­magna sig til skemmri tíma. Enda end­ur­spegl­ar það  þarf­ir spari­fjár­eig­enda. Hluti af viðskiptalíkani þeirra. „Þessi staða leiðir til þess að bank­ar eru ber­skjaldaðir fyr­ir upp­námi í fjár­mögn­un þeirra. Banka­áhlaup geta átt sér stað. Þetta get­ur leitt til þess að lausa­fjár­vandi verður að eig­in­fjár­vanda og eigna­sala við erfið skil­yrði geng­ur hratt á eigið fé," seg­ir Yngvi Örn og bæt­ir við að klass­íska leiðin var fólg­in í út­tekt­um inn­lána. Nú get­ur áhlaupið eins verið tregða til end­ur­fjármögn­un­ar lána á milli­banka- og skulda­bréfa­markaði.

Yngi Örn seg­ir að krepp­ur af þessu tagi hafi verið klass­ískt vanda­mál á 19. öld­inni og leiddi oft til kostnaðarsamra efna­hagserfiðleika. Upp úr þessu verða seðlabank­arn­ir til en þeir voru fyrst og fremst sett­ir á lagg­irn­ar til að leysa þetta vanda­mál.

 Að sögn Yngva erum við í dag með tveggja þrepa banka­kerfi, viðskipta­banka og fjár­fest­inga­banka og síðan seðlabanka sem er til ör­ygg­is fyr­ir kerfið. Lausa­fjár­vandi bank­anna er því lausa­fjár­vandi seðlabank­anna.

Af hverju ætti að bjarga fjár­mála­fyr­ir­tækj­um er spurn­ing sem marg­ir spyrja sig þessa dag­ana, sagði Yngvi Örn á fund­in­um. Reynsl­an sýni að fjár­málakrepp­ur eru alltaf aðdrag­and­inn að djúp­um og langvar­andi efna­hags­lægðum sem fylgja mikið vel­ferðar- og fram­leiðslutap. Sér­stak­lega skipt­ir máli að tryggja starf­semi kerf­is- eða lyk­il­bank­anna í hag­kerf­inu. Rof á starf­semi kerf­is­banka hef­ur víðtæk­ari áhrif en annarra fyr­ir­tækja.

Björg­un­araðgerðir bein­ast því að því að vernda fyr­ir­tæk­in en ekki hluta­fé eig­enda. 

Tvö tæki seðlabanka

Seðlabank­ar hafa tvö tæki - það er að lækka stýri­vexti eða að veita lána­stofn­un­um fyr­ir­greiðslu og um leið eyk­ur það lausa­fé og út­lána­getu bank­anna. Seðlabank­ar, sem ein­ir hafa heim­ild til út­gáfu pen­inga­seðla, hafa nán­ast ótak­markaða mögu­leika á að taka vaxta­laus lán hjá al­menn­ingi með út­gáfu pen­inga­seðla. 

Þó að seðlabank­ar hafi mögu­leika á að dæla út pen­ing­um þá verða aðrir þætt­ir að vera í lagi. For­send­ur þess að hægt sé að beita slak­ari pen­inga­stefnu  er að lána­stofn­an­ir hafi burði til að miðla pen­inga­fram­boðinu áfram til neyslu og fjár­fest­inga. Vænt­ing­ar verða að vera með þeim hætti að ein­hverj­ir fjár­fest­inga­kost­ir telj­ist skila betri ávöxt­un en inn­lán eða reiðufé.

Ef ann­ar hvor þess­ara þátta virk­ar ekki get­ur hag­kerfið lent í reiðufjár­gildru (liquidity trap), það er stöðu þar sem slök­un pen­inga­stefn­unn­ar virk­ar ekki. Líkt og Jap­an­ir upp­lifðu í kreppu sem þar ríkti í kring­um 1990.

Yngvi Örn seg­ir að eng­inn vafi sé á því að nauðsyn­legt er að láta töp koma fram á stutt­um tíma og end­ur­fjármagna kerf­is­banka, ef þess er þörf, til að forða langvar­andi efna­hags­lægð. Sér­stak­lega sé mik­il­vægt að lækk­un eigna­verðs komi fram að fullu þannig að trú­verðugur grund­völl­ur skap­ist fyr­ir ný viðskipti. Seg­ir hann hættu­legt að fela töp í efna­hag banka eða í sér­stök­um „far­ar­tækj­um" þannig að þau hangi yfir markaðnum. Nauðsyn­legt sé að af­skrifa og selja eign­ir til markaðsverðs.

Viðbrögð banda­rískra stjórn­valda rétt

Yngvi Örn rakti í fyr­ir­lestri sín­um þá stöðu sem rík­ir í Banda­ríkj­un­um og viðbrögð stjórn­valda við henni sem Yngvi Örn seg­ist telja að hafi verið góð og rétt. Seg­ir hann að banda­rísk yf­ir­völd hafi sýnt vilja og snar­ræði til að tak­ast á við vand­ann. Lík­legt sé að stofn­un sjóðs til kaupa á íbúðagern­ing­um muni stöðva frek­ara verðfall á slík­um gern­ing­um.

Tals­verðar út­lána­af­skrift­ir virðist vera í far­vatn­inu en lík­legt er að þegar sé búið að taka þeim með þeim samr­un­um og yf­ir­tök­um sem þegar hafa komið til fram­kvæmda.

Meðal ann­ars hafi Seðlabanki Banda­ríkj­anna ít­rekað lækkað vexti og nú séu stýri­vext­ir hans 2%. Frá því að erfiðleik­arn­ir komu fyrst upp á milli­banka­markaði hef­ur seðlabank­inn ít­rekað aukið fyr­ir­greiðslu sína. Trygg­ing­a­regl­ur hafa verið rýmkaðar, ný lengri lán séu í boði og skipta­samn­ing­ar við önn­ur helstu seðlabanka­kerfi hafi tví­veg­is verið gerðir til að stuðla að jafn­vægi á skamm­tíma­mörkuðum. Sam­tals hef­ur 230 millj­örðum Banda­ríkja­dala verið varið í þess­ar aðgerðir.

Seðlabank­inn hef­ur aðstoðað við yf­ir­töku fjár­mála­fyr­ir­tækja, svo sem Bear Ste­arns með 29 millj­arða dala fyr­ir­greiðslu og AIG með 85 millj­arða dala láni. Banda­ríski rík­is­sjóður­inn hef­ur yf­ir­tekið Fred­dy Mac og Fannie Mae með allt að 200 millj­arða dala láni.

Í burðarliðnum er að stofna sjóð á veg­um banda­ríska rík­is­ins til að kaupa fast­eigna­veðlán eða verðbréf tryggð með fast­eignalán­um fyr­ir allt að 700 millj­arða dala. Seg­ir Yngvi Örn að seðlabank­inn og önn­ur stjórn­völd séu ein­beitt í að taka á vand­an­um sem rík­ir á mörkuðum.

Fram kom í fyr­ir­lestri Yngva Arn­ar að Seðlabanki Evr­ópu hafi hingað til ekki talið að þess­ir erfiðleik­ar muni valda fjár­málakreppu í Evr­ópu. Hins veg­ar bendi nýj­ustu upp­lýs­ing­ar til þess að áhrif krepp­unn­ar á hag­vöxt fari vax­andi í Evr­ópu. 

Í Bretlandi hafi mik­ill lausa­fjár­vandi komið fram, þá sér­stak­lega hjá hús­næðis­bönk­um sem treystu að mestu á aðgang að milli­banka- og skulda­bréfa­markaði. Viðbrögð Eng­lands­banka hafi verið fálm­kennd þó svo að seðlabanka­fyr­ir­greiðsla hafi auk­ist og trygg­ing­ar út­víkkaðar, að sögn Yngva Arn­ar. 

Wall Street
Wall Street Reu­ters
Fransa CAC vísitalan hefur lækkað mikið
Fransa CAC vísi­tal­an hef­ur lækkað mikið Reu­ters
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK