Nefnd á vegum viðskiptaráðherra, sem skipuð er fulltrúum þingflokkanna, hagsmunasamtaka og ráðuneyta, hefur í eitt ár unnið að endurskoðun laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum og að einföldun reglna um takmarkanir á þessum fjárfestingum útlendinga hér. Að sögn Jóns Þórs Sturlusonar, formanns nefndarinnar, má reikna með að hún skili niðurstöðum sínum mjög fljótlega. Hann á von á að samkomulag muni nást um „veigamikla þætti“.
Ef frá er talin stórtæk fjárfesting erlendra fyrirtækja í stóriðju á Íslandi, hefur lítið farið fyrir útlendingum í íslenskum atvinnurekstri. Fréttir af kaupum sjeiks Mohammeds Bin Khalifa Al-Thanis á 5% hlut í Kaupþingi fyrir tæpa 26 milljarða hafa því vakið athygli. Tölur sem Seðlabankinn birtir reglulega sýna raunar að bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi hefur aukist stórum skrefum á seinustu misserum. Í lok júní var beina erlenda fjárfestingin komin í 887 milljarða, auk þess sem eign erlendra fjárfesta í innlendum markaðsverðbréfum jókst um 238 milljarða á öðrum ársfjórðungi.