Fréttaskýring: Björgunarpakki stendur í þinginu

Henry Paulson og Ben Bernanke á fundi bankanefndar Bandaríkjanna.
Henry Paulson og Ben Bernanke á fundi bankanefndar Bandaríkjanna. Reuters

Ekki er ljóst hvort þeir félagar Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Ben Bernake, seðlabankastjóri, voru búnir undir það andstreymi sem þeim mætti þegar þeir komu fyrir bankanefnd bandaríska þingsins í gær.

Í fimm klukkustundir sátu þeir undir afar gagnrýnum, jafnvel reiðulegum og allt að því meinfýsnum spurningum þingnefndarmanna um björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar upp á 700 milljarða dala. Þeir létu á engu bera en ítrekuð aðeins að nú þyrfti að hafa hraðan á ef ekki ætti illa að fara, kreppan í fjármálaheiminum myndi ella að stigmagnast með tilheyrandi atvinnuleysi almennings og gjaldþrotum heimilanna sem væru að missa húsnæðið ofan af sér.

Þingmenn spyrntu við fótum og og sögðu ekki nokkra leið að ýta máli af þessari stærðargráðu í gegn án verulegrar yfirlegu. „Þótt guð hafi skapað heiminn á sjö dögum þýðir það ekki að við þurfum að afgreiða þetta mál á sjö dögum,“ hefur AP-fréttastofan eftir fulltrúadeildarþingmanninum og repúblikanum Joe Barton frá Texas. Aðrir settu fyrir sig að verið væri að færa Paulson alræðisvald yfir öllum þessum fjármunum, og það sem verra væri - meira og minna eftirlitslaust.

Wall Street-greifarnir sleppi ekki

Paulson og Bernanke eru nú í dag öðru sinni fyrir þingnefndinni og munu þá þurfa að móta svör sín við meginathugasemdum þingmanna frá því í gær: Björgunaraðgerðin með sínum stjarnfræðilegum fjárhæðum megi ekki verða á kostnað skattborgaranna meðan Wall Street-greifarnir sleppa meira og minna á sléttu og jafnvel rúmlega það.

Hagsmunagæslumenn Wall Streets hafa farið hamförum í þinginu til að koma í veg fyrir að settar verði skorður eða jafnvel gjald á greiðslur til stjórnenda fyrirtækja í Wall Street sem björgunaraðgerðirnar eiga að ná til, segja slíkt muni einungis taka fyrir frumkvæði og hugmyndauðgi sem hafi verið aðal stjórnenda á Wall Street og skaði til lengri tíma fjármálageirann og þar með bandarískt efnahagslíf.

„Við styðjum málið en erum andsnúnir skilyrtum stjórnendalaunum“, segir Scott Talbott, forsvarsmaður Hjá Financial Services Roundtable, hagsmunasamtaka, við The New York Times. „Það er ekki viðeigandi að ríkisvaldið ákvarði laun stjórnenda.“

Gulleggið er horfið

Engu að síður þykir óhjákvæmilegt að einhverjar skorður verði settar á stjórnendalaunin, að mati fjármálasérfræðinga og hagfræðinga,og það sé jafnvel skynsamlegt eins og staða mála er. Haft er eftir Arthur Lewitt Jr., fyrrum forstjóra á Wall Street og fyrrum stjórnarformanni Verðbréfa- og kauphallareftirlitsins (SEC) að takmarkanir á stjórnendalaun fyrirtækja, sem séu hluti af björgunaraðgerðinni, séu grundvallaratriði til að koma málum í gegnum þingið enda sanngirnismál.

Fjármálageirinn, segir Lewitt, mun halda áfram að greiða há laun til þeirra sem árangri skila, þótt þau verði ekki eins há og þau voru þegar uppgangurinn var mestur. „Gulleggið er horfið,“ segir hann.

Hvernig á að verðleggja skemmdu eplin?

Annað umdeilt atriði er verðmatið á „skemmdu eplunum“, fasteignalánunum sem 700 milljarða dala sjóðunum er ætlað að kaupa, þ.e. hvort skattborgararnir á bak við sjóðinn eigi ekki að fá þessi bréf á sem lægstu verði. Bernanke seðlabankastjóri gerði þingnefndinni grein fyrir því í gær að stjórnvöld ætluðu ekki að kaupa þessi fasteignaveðlán á „brunaútsöluverði“, eins og haft var eftir honum á Bloomberg-vefnum. Þess í stað sé horft á langtímaverðlagningu eignanna og þeim haldið í vörslu sjóðsins þar til að uppgreiðslu kemur eða markaðsaðstæður batna. Sérfræðingar halda því fram að of lág verðlagning geti komið afar illa við fjármálamarkaðinn og ýtt efnahagslífinu niður í enn dýpri öldudal.

Þetta er viðkvæm ögurstund, er haft eftir L. William Seidman, sem á sínum tíma veitti forstöðu þeirri stofnun sem annaðist uppgjör þrotabúanna í sparisjóðahruninu í Bandaríkjunum á níunda áratugnum. „Ef verðið er of lágt gerist ekkert,“ segir hann við Bloomberg. „Ef verðið er hins vegar of hátt getur það haft í för með sér hrikalegt tap fyrir skattgreiðendur. Ég er eiginlega jafn áhyggjufullur út af hvorri leið“. Bernanke sagði fyrir bankanefnd þingsins í gær að enn væru menn ekki búnir að finna bestu leiðina til að útfæra verðlagninguna.

Peningavald á eftir hervaldi

Margir úr röðum hagfræðinga hafa einnig mikla fyrirfara á björgunarpakka ríkisstjórnarinnar sem sumstaðar gengur undir uppnefninu „cash for trash“  („reiðufé fyrir rusl“), að því er fram kemur í pistli hagfræðingsins Paul Krugman í New York Times í vikunni, sem segir einnig að aðrir kalli frumvarpsdrögin nú  Authorization to Use Financial Force, heimild til að beita peningavaldi, sem er afbökun á alræmdum lögunum Authorization to Use Military Force, heimild til að beita hervaldi og Bush-stjórnin notaði til að fara inn í Írak.

Krugman greinir fjármálakreppuna í fernt:

  1. Sprungin húsnæðisbólan hefur í för með sér stóraukningu gjaldfallinna lána og eignaupptöku sem aftur hefur leitt til verðhruns á veðtryggðum eignum sem á verðgildi sitt undir greiðslum veðlánanna.
  2. Fjárhagslegt tap af þessum sökum hefur haft í för með sér fjárþrengingar fyrir mörg fjármálafyrirtæki - með of litlar eignir í samanburði við skuldir. Þetta vandamál sé þeim mun alvarlegra þar sem allir hafi tekið á sig miklar skuldir þegar bólan var í hæstu hæðum
  3. Þar sem fjármálastofnanir eru svo aðþrengdar með fjármagn miðað við skuldirnar hafa þær reynst ófúsar til að veita þá lánafyrirgreiðslu sem efnahagslífið þarf á að halda.
  4. Fjármálastofnanir hafa verið að reyna að greiða niður skuldir sínar með eignasölu, þar með talin veðtryggð verðbréf sín sem aftur keyrir eignaverðið niður og veikir enn frekar stöðu þeirra.

Krugman segir að áætlun Paulson beinist að því að nota 700 milljarða dalina til uppkaupa á þessum vandaræðaeignum, einkum veðtryggðu pappírunum. Það geti hugsanlega rofið þann vítahring sem lýst er í fjórða lið greiningar Krugmans á vandanum en sé alls ekki víst. Þótt vandinn sem felist í vítahringnum sé takmarkaður standi eftir að fjármálakerfið sé eftir sem áður í spennutreyju þar sem það vanti fjármagn inn í kerfið. Eða öllu heldur að kerfinu sé haldið í spennutreyju ónógs fjármagns nema ríkið yfirborgi umræddar eignir stórlega sem aftur færi hluthöfum og yfirstjórnendum fjármálafyrirtækjanna umtalsverðar fjárhæðir á kostnað skattgreiðenda.

Tillaga Krugman

Krugman leggur til aðra leið - beinir athyglinni að öðrum lið greiningar sinnar, þ.e. að fjármagn vanti inn í fjármálafyrirtækin. Ætli stjórnvöld að sjá fjármálafyrirtækjunum fyrir fjármagni þá eigi að sjá þeim sem leggja til þetta fjármagn, þ.e. almenningi, fyrir umbun sem honum ber - þ.e.a.s. hlut í eigninni þannig að ávinningurinn af áætluninni - ef hún tekst - renni ekki öll til þeirra sem áttu sökina á allri dellunni í upphafi.

Þess hafi verið gætt í sparisjóðakrísunni á sínum tíma; alríkisstjórnin hafi tekið yfir vondu bankanna en ekki bara vondu eignirnar og sama hafi gerst með húsnæðislánabankana Fannie og Freddie. Í sjálfu sér má svo líkja þessu við sænsku leiðina svokölluðu sem sagði hér fá á vefnum í fyrradag, þ.e. að sænska ríkið fór inn í þær fjármálastofnanir sem stóðu hvað verst, átti þær meðan markaðurinn var að ná sér en seldi síðan eða einkavæddi og náðu megninu af peningunum til baka.

Höfundar björgunaráætlunarinnar hafa ekki verið þessa sinnis og segja hana flækja mál og seinka aðgerðum. Henry Paulson og Ben Bernanke eru núna þegar þetta er skrifað væntanlega á öðrum degi fyrir bankanefnd bandaríska þingsins. Þar verður farið áfram í gegnum alla þessa hluti með öllum hugsanlegum útúrdúrum og útfærslum.

Lendingin liggur ekki fyrir á þessari stundu en eitt hljóta allir að vona í ljósi ríkulegra hugamuna sem teygja sig um alla heimsbyggð - að fjallið taki ekki jóðsótt einungis til að fæða litla mús.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka