Verðbólgan 14%

Útsölulok höfðu áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs
Útsölulok höfðu áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs mbl.is/ÞÖK

 Vísi­tala neyslu­verðs miðuð við verðlag í sept­em­ber 2008  hækkaði um 0,86% frá fyrra mánuði. Vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis hækkaði um 1,25% frá ág­úst. Síðastliðna tólf mánuði  hef­ur vísi­tala neyslu­verðs hækkað um 14% en vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis um 14,7%. Er þetta minni hækk­un en grein­ing­ar­deild­irn­ar viðskipta­bank­anna þriggja spáðu. Held­ur hef­ur dregið úr verðbólgu milli mánaða en í ág­úst mæld­ist hún 14,5% en er 14% nú, miðað við tólf mánaða tíma­bil.

Þriggja mánaða verðbólga mæl­ist 11,4%

Und­an­farna þrjá mánuði hef­ur vísi­tala neyslu­verðs hækkað um 2,7% sem jafn­gild­ir 11,4% verðbólgu á ári (12,7% fyr­ir vísi­töl­una án hús­næðis).

Verð á föt­um og skóm hækkaði um 11,2% (vísi­tölu­áhrif 0,47%), aðallega vegna sumar­út­sölu­loka. Verð á þjón­ustu hækkaði um 1,1% (0,30%). Þar af voru vísi­tölu­áhrif af verðhækk­un á op­in­berri þjón­ustu 0,08% og af verðhækk­un annarr­ar þjón­ustu 0,22%.

Kostnaður vegna eig­in hús­næðis lækkaði um 0,7% (-0,11%). Þar af voru áhrif af lækk­un markaðsverðs -0,14% en áhrif af hækk­un raun­vaxta voru 0,03%. Verð á nýj­um bíl­um lækkaði um 1,8% (-0,14%).

Verðbólg­an hef­ur ekki mælst jafn mik­il í 18 ár eða frá ág­úst 1990 er hún var 14,2%.

Grein­ing­ar­deild­ir viðskipta­bank­anna þriggja gerðu ráð fyr­ir að hækk­un­in nú næmi 1,1-1,2% og voru þær sam­mála um í spám sín­um að ein helsta skýr­ing­in á hækk­un vísi­tölu neyslu­verðs í sept­em­ber myndi að mestu skýr­ast af út­sölu­lok­um.

Sam­kvæmt spá grein­ing­ar­deild­ar Lands­bank­ans var gert ráð fyr­ir hækk­un vísi­tölu neyslu­verðs upp á 1,1%. Tel­ur grein­ing­ar­deild­in að verðbólg­an hafi hef­ur að lík­ind­um náð há­marki að sinni.

„Spá okk­ar ger­ir ráð fyr­ir að hún lækki jafnt og þétt á næsta ári. Hún verði kom­in niður í 5% á síðasta fjórðungi 2009 og niður fyr­ir 3% í lok árs 2010. Á ár­un­um 2011 og 2012 mun verðbólg­an sveifl­ast á bil­inu 2 til 3%. Sam­kvæmt spá okk­ar næst verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans eft­ir rúm­lega tvö ár,” að því er seg­ir í verðbólgu­spá grein­ing­ar­deild­ar Lands­bank­ans frá því í gær.

Grein­ing­ar­deild Kaupþings spáði einnig 1,1% hækk­un vísi­töl­unn­ar. Grein­ing­ar­deild­in ger­ir ráð fyr­ir til­tölu­lega hárri mánaðar­hækk­un í næstu mæl­ingu í októ­ber og telj­ur að tólf mánaða verðbólga muni þá ná há­marki ná­lægt 15%. 

Grein­ing Glitn­is spáði mestri hækk­un vísi­töl­unn­ar nú eða 1,2%. Ekki kem­ur fram í spá grein­ing­ar frá því í gær hvert fram­haldið verður en í verðbólgu­spá sem birt var þann 12. sept­em­ber sl. kom fram að verðbólg­an muni hald­ast há í næsta mánuði, eða yfir 14% en næstu mánuði á eft­ir dreg­ur svo ró­lega úr ár­sverðbólg­unni.

Skór hækkuðu í verði á milli mánaða
Skór hækkuðu í verði á milli mánaða mbl.is/Á​sdís Ásgeirs­dótt­ir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK