Verri kjör valda hruni krónunnar


Hrun krónunnar upp á síðkastið má fyrst og fremst rekja til þess að kjör á gjaldmiðlaskiptamarkaði hafa versnað til muna - þ.e. vaxtamunur við útlönd er nú neikvæður. Þetta kemur fram í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

„Þessi atburðarrás hefur gert endurfjármögnun krónubréfa ákaflega erfiða auk þess sem aðrir erlendir fjárfestar fá ekki lengur ávöxtun á stöður sínar með krónunni. Ástæðan fyrir verri kjörum á skiptamarkaði er fyrst og fremst gríðarleg lausafjárþurrð um víða veröld þar sem bankar halda fast í hverja evru og dollar. Væntanlega eru aðstæður sérstaklega slæmar nú þar sem senn kemur að ársfjórðungslokum - þar sem gríðarlega mikilvægt er fyrir bankastofnanir að sýna fram á lausafjárgnótt til þess að viðhalda trausti á mörkuðum. Bankar hérlendir eru ekkert öðruvísi að þessu leyti og verða að huga vel að lausafjárstöðu sinni í erlendum gjaldmiðli. Það á m.a. þátt í þeirri gjaldeyrisþurrð sem nú er til staðar,” samkvæmt Hálf fimm fréttum Kaupþings.

 

Ekki gera ekki neitt

Seðlabankar um allan heim hafa brugðist við þessum aðstæðum. T.a.m. veittu seðlabankar Noregs og Brasilíu - upp á sitt einsdæmi - bönkum fyrirgreiðslu í erlendri mynt nýverið. Sömuleiðis hefur bandaríski seðlabankinn dælt gríðarlegu lausafé inn á markaðinn og framlengt skiptalínum upp á 70 milljarða dala við evrópska seðlabankann og Seðlabanka Sviss. Jafnframt hafa verið settar upp nýjar lánalínur við Japan, England og Kanada upp á 110 milljarða dala, samkvæmt greiningardeild Kaupþings.

„Allt hefur þetta sama tilganginn, þ.e.a.s. að álag á peningamörkuðum lagist og markaðurinn fari að virka með eðlilegum hætti. Ef bankar fá fyrirgreiðslu í dollurum minnkar hvatinn til að sanka þeim að sér og fyrir vikið fara bankar aftur að treysta og lána sín á milli. Það sem er helst af þessum vígstöðum að frétta er að nú hefur Seðlabanki Bandaríkjanna ákveðið að dæla inn 30 milljörðum dala til viðbótar í samkomulagi við seðlabanka Ástralíu, Danmörku, Noregs og Svíþjóðar með það að markmiði að auðvelda skammtímafjármögnun í dollurum.

 

Ástæðan fyrir tilveru Seðlabanka er að tryggja lausafjárstöðu þess fjármálakerfis sem þeir hafa umsjón með. Sú skylda hlýtur einkum að ná til viðkomandi þjóðargjaldmiðils en við núverandi aðstæður – alþjóðlega fjármálakrísu – hlýtur skyldan einnig að ná til erlendra gjaldmiðla.

Ljóst er að Seðlabanki Íslands gæti hæglega boðið upp á skammtímaskiptasamninga í evrum gegn íslenskum veðum til skamms tíma í senn - eins og bankar hafa í raun verið að gera óháð skiptasamningum við bandaríska seðlabankann. Með því er unnið að fjármálalegum stöðugleika sem á verulega undir högg að sækja en þeir markaðsbrestir sem eru uppi á gjaldeyrismarkaði hljóta að teljast til óstöðugleika.

Þessi framkvæmd hefur ekki aukakostnað í för fyrir sér fyrir Seðlabankann þar sem uppboð færi fram og bankarnir fengju evrur í hendurnar á markaðskjörum. Ekki yrði gengið á gjaldeyrisvaraforðann þar sem Seðlabankinn fengi evrurnar aftur í hendur í lok samningstímans. Að vísu er alltaf einhver mótaðilaáhætta til staðar en hins vegar ber bankinn nú þegar þessa áhættu í endurhverfum viðskiptum við íslenska banka.

Helstu rökin fyrir því að veita ekki þessa fyrirgreiðslu er væntanlega sú að hún myndi vekja upp spurningar erlendra aðila um stöðu íslensku bankanna – og væntanlega vera túlkað sem veikleikamerki - og þannig vinna gegn fjármálastöðugleika. Hins vegar má velta fyrir sér af hverju Seðlabanki Íslands getur ekki fylgt fordæmi systurstofnanna sinna. Alla alþjóðlega banka vantar í augnablikinu aðgang að USD (Bandaríkjadölum) og EUR (evrum)og af hverju þyrfti það að vera túlkað neikvætt fyrir íslenska banka við núverandi aðstæður?," að því er segir í Hálf fimm fréttum Kaupþings.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK