Einhver slyngasti fjárfestir heims hefur veðjað milljörðum Bandaríkjadala á að bandaríska fjármálakerfið sé ekki að hruni komið. AP-fréttastofan greinir frá því að í gær hafi Berkshire Hathaway Inc., fjármálafyrirtæki Warren Buffetts, lagt 5 milljarða dala í Goldman Sachs Group Inc.. Kaupin þykj mikil traustsyfirlýsing fyrir fyrirtækið, annan af tveimur fjárfestingabönkum sem stóðu af sér umrótið á fjármálamörkuðunum en leituðu engu að síður skjóls með því að breyta rekstrarforminu í almennan banka.
Til viðbótar því að kaupa 5 milljarða dala af völdum hlutabréfum fær Berkshire rétt á kaupum á öðrum 5 milljörðum dala í almennum hlutabréfum. Goldman greindi einnig frá því í gær að það hygðist afla annarra 2,5 milljarða dala í eigin hlutafjárútboði.
Hlutabréfa í Goldman hækkuðu mikið við fréttirnar af fjárfestingu Buffett en þykja geta leitt til áleitinna spurninga frá þingmönnum til Henry Poulson fjármálaráðherra, fyrrum yfirmanns Goldman Sachs. Hann og Ben Bernanke, seðlabankastjóri, höfðu skömmu áður komið fyrir bankanefnd þingsins vegna óska um hraðafgreiðslu á 700 milljarða dala björgunaraðgerð fyrir fjármálageirann til að koma í veg fyrir hrun markaðarins.
Bréf í Goldman Sachs höfðu fallið mikið fyrir tilkynningu stjórnvalda um björgunaraðgerðir sl. föstudag, þar sem fjárfestar óttuðust að fjárfestingabankinn stæði frammi fyrir samskonar fjárþrengingum og Lehman og Bear Stearman höfðu mátt þola.
Fjárfestingin ekki ókeypis fyrir Goldman
Buffett nefndi hvergi þingnefndarfundina í Washington með fjármálaráðherra og seðlabankastjóra í tilkynningu sinni um kaupin í Goldman. Hann lauk þar hins vegar miklu lofsorði á fyrirtækið sem væri „einstakt fyrirtæki“ með heimsnet útibúa sem væri engu öðru líkt, með reynslumikla breiðfylkingu stjórnenda og mann- og fjárauð til að skila árangri langt umfram það sem gerist og gengur.
Þetta er önnur alvöru fjárfesting Buffett í fjármálafyrirtæki á Wall Street en hann átti um tíma hlut í Salomon Brothers á tíunda áratugnum, og stýrði því í gegnum sáttaviðræður við stjórnvöld vegna misferlis í viðskiptum með ríkisskuldabréf. Salomon var seinna selt og rann í það sem nú heitir Citigroup Inc.
Robert Preston, viðskiptaritstjóri BBC, dregur hins vegar í efa að hægt sé að kalla kaup Buffett í Goldman traustsyfirlýsingu við bandaríska fjármálakerfið. „Hann krefst og fær væna 10% arðgreiðslu sem þýðir að hann lítur á Goldman sem mjög áhættusama fjárfestingu,“ segir Preston. „Þetta kostar Goldman mikla peninga, einkum í ljósi þess að vilji fyrirtækið kaupa Buffett út þarf það að greiða 10% yfirverð.“