Gengi krónu er afar háð þeim skilyrðum sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hverju sinni svo og mati erlendra matsfyrirtækja á efnahagslegum aðstæðum hér á landi og áhættulyst fjárfesta svo dæmi séu tekin. Þetta kemur fram í Morgunkorni Greiningar Glitnis þar sem fjallað er um miklar sveiflur á gengi krónunnar.
„Miklar sveiflur hafa verið í gengi krónunnar síðustu mánuði en talsverðar sveiflur hafa verið í gengi krónunnar allt frá því að núverandi fyrirkomulag peningamála var tekið upp vorið 2001. Engu að síðust hafa sveiflurnar ágerst síðustu tvö og hálft ár. Koma þar til nokkrir þættir, þar á meðal smæð gjaldmiðilsins í opnu hagkerfi sem hefur búið við viðvarandi verðbólgu og mikinn viðskiptahalla síðustu árin og reiðir sig á erlenda fjármögnun, sem og verulegur vaxtamunur við útlönd. Gengi krónu er af þeim sökum afar háð þeim skilyrðum sem ríkja á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hverju sinni svo og mati erlendra matsfyrirtækja á efnahagslegum aðstæðum hér á landi og áhættulyst fjárfesta svo dæmi séu tekin.
Gengissveiflur krónunnar haldast þétt í hendur við þau áföll sem dunið hafa á þjóðarbúskapnum. Daglegar sveiflur í gengi krónu jukust til að mynda verulega þegar „litla Íslandskrísan“ reið yfir á vormánuðum ársins 2006 og gengi krónu lækkaði um fimmtung yfir þriggja mánaða tímabil.
Þá hafa skammtímasveiflur í gengi krónu einnig verið talsverðar frá því að aðstæður á erlendum fjármálamörkuðum breyttust til hins verra um mitt síðasta ár. Daglegar sveiflur í gengi krónunnar jukust umtalsvert um það leyti sem alþjóðlega fjármálakreppan skall á og gengi krónu lækkaði um 10% á skömmum tíma. Sömu sögu má segja þegar skyndileg breyting varð á áhættulyst erlendra fjárfesta í mars á þessu ári.
Á sama tíma tók þrenginga að gæta á innlendum markaði með gjaldmiðlaskiptasamninga vegna skerts aðgengis að erlendu láns- og lausafé. Gengi krónu lækkaði um ríflega 16% í mars og gengisvísitalan fór í áður óþekktar hæðir. Það sama hefur verið að gerast nú í september og hefur gengi krónu lækkað um 12% það sem af er mánaðar," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.
Andrúmsloft á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur verið ráðandi þáttur í þróun gengis krónunnar undanfarin misseri. „Í þessu ljósi er forvitnilegt að skoða samband gengisvísitölunnar og mælikvarða á áhættulyst fjárfesta, s.s. skuldatryggingarálag á fjármálafyrirtæki. Lítil áhættulyst erlendra fjárfesta hefur endurspeglast í háu skuldatryggingarálagi á íslensku bankana. Álagið náði áður óþekktum hæðum í mars á þessu ári og nálgaðist þær á ný í ágúst og hefur síðustu daga verið hærra en nokkru sinni fyrr.
Fylgni gengis krónu við skuldatryggingarálag á íslensku bankana hefur verið allsterk frá því að alþjóðlega fjármálakrísan skall á um miðbik síðasta árs ef undan er skilið tveggja mánaða skeið í vor þegar skuldatryggingarálag fór lækkandi á sama tíma og skert aðgengi að erlendu lausafé hafði þau áhrif að gengisvísitalan hækkaði.
Sömu sögu
má segja um fylgni gengis krónu og skuldatryggingarálags á evrópsk
fyrirtæki, mælt með iTraxx vísitölunni. Vísitalan náði sínum hæstu
gildum um miðjan mars um það leyti sem tíðindi bárust af falli
bandaríska fjárfestingarbankans Bear Stearns og ugg setti að fjárfestum
víða um heim sem óttuðust að fleiri bankar fylgdu í kjölfarið og
hækkaði einnig talsvert nú í september um það leyti sem fregnir bárust
af því að fjárfestingarbankinn Lehman Brothers hefði sótt um að vera
tekinn til gjaldþrotaskipta," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.