Fréttaskýring: Björgunarpakkinn blandast inn í kosningabaráttuna

Hvaða leikrit var í gangi á fundinum með Bush og …
Hvaða leikrit var í gangi á fundinum með Bush og forsetaframbjóðendunum í Hvíta húsinu í gærkvöldi. AP

Það virðist svolítið á huldu hvað gerðist nákvæmlega við fundarborðið í Hvíta húsinu síðdegis í gær þar sem leiðtogar fulltrúadeildar bandaríska þingsins voru mættir ásamt forsetaframbjóðendunum tveimur, Barack Obama og John McCain, til að reka smiðshöggið á björgunaraðgerð ríkisstjórnarinnar fyrir fjármálalífið í landinu.

Væntanlega hefur aldrei staðið til að þessi fundur um þetta brýna mál blandaðist inn í kosningabaráttuna um næsta forseta Bandaríkjanna en einhvern veginn gerðist það og í gang fór pólitískt leikrit sem menn eru enn að reyna að átta sig á út á hvað gekk.

Hvað gekk McCain til?

Þó er tilfinningin sú að demókratar telji sig hafa komið nokkuð vel út úr þessu öllu saman meðan John McCain sé í vanda og  þyki ekki maður af meiri fyrir framgöngu sína á fundinum og í kringum hann.

Fyrir fundinn hafði verið lögð höfuðáhersla á að í umfjöllun þingsins um björgunaraðgerðina kæmust báðir flokkarnir að sameiginlegri niðurstöðu um nauðsynlegar breytingar á tillögum Henry Paulson, fjármálaráðherra - skiljanlega í ljósi viðkvæms pólitísks andrúmslofts í miðri baráttunni fyrir forsetakosningarnar í byrjun nóvember.

Báðir flokkarnir þurfa að axla ábyrgð á aðgerðum til bjargar bandarísku fjármálalífi, aðgerðum sem engan veginn sér fyrir endann á þótt lögin verði samþykkt í þinginu. Og þegar aðilar héldu í Hvíta húsið var ekki annað vitað að aðeins væri lokahnykkurinn eftir til að frumvarpið tæki á sig endanlega mynd.

Í frétt AP-fréttastofunnar segir að Bush forseti hafi tekið einarða afstöðu með málinu með þeim lagfæringum sem þingið vildi fá fram á upphaflegum tillögum Paulson fjármálaráðherra, svo sem að tryggt væri að yfirstjórnendur fjármálafyrirtækjanna högnuðust ekki á öllu saman, og gætt yrði hagsmuna skattborgaranna, jafnvel á þann hátt að þeir fengju hlut í fyrirtækjunum sem aðstoð fengju til að fá peningana hugsanlega til baka þegar betur áraði, og þar fram eftir götum.

Óvænt kúvending

En  mál tóku allt aðra stefnu á fundinum en gert hafði verið ráð fyrir. Það sem frést hefur af því sem gerist bak við luktar dyrnar er að óvænt upplýsti John A. Boehner frá Ohio og leiðtogi rebúblikana í fulltrúadeild þingsins,  að ekki væri fyrir hendi stuðningur félaga hans í deildinni við björgunaraðgerðina, og lagði fram aðra tillögu sem gerði ráð fyrir minni afskiptum ríkisstjórnarinnar. Stuðningur McCain við björgunaraðgerðina hafði verið talinn lykillinn að því að koma málinu gegn en eftir að þessi breytta afstaða repúblikanna lá fyrir á fundinum hafði hann sig nánast ekkert í frammi og gaf ekki upp afstöðu sína.

Viðræðurnar leystust upp í hálfgerðum illindum og með ásökunum á báða bóga á fundi með blaðamönnum í fundarlok. Sagt er að Henry Paulson hafi nánast lagst á hnén þegar hann sárbændi demókratann Nancy Pelosi, þingforseta fulltrúadeildarinnar, að „sprengja“ ekki upp málið með því að draga til baka stuðning flokks hennar við aðgerðirnar vegna kúvendingar repúblikana.

„Ég vissi ekki að þú værir kaþólskur,“ er sagt að Pelosi hafi hreytt út úr sér þegar hún horfði á bænarstellingar fjármálaráðherrans. „Það er ekki ég sem er að sprengja þetta, það eru repúblikanar.“

„Ég veit, ég veit," á Paulson að hafa stunið upp mæðulega, að því er segir frá í New York Times.

Óttinn í fyrirrúmi

Bush forseti hóf daginn í dag með því að freista þess að vinna uppreisnarmennina í flokki sínu í fulltrúadeildinni til fylgis við björgunaraðgerðina. Í stuttorðu ávarpi í Hvíta húsinu sagði hann að þingmenn hefðu fullan rétt á að lýsa efasemdum sínum og vinna sig í gegnum ágreining en bætti svo við að jafnframt yrðu þeir að vita „hvað til þeirra friðar heyrði“ og samþykkja áætlun til að koma í veg fyrir hrun fjármálalífsins. „Það er ágreiningur um suma þætti björgunarpakkans,“ sagði hann, „en það er enginn ágreiningur um að til umtalsverðra ráðstafanna þarf að grípa. Við munum koma þessum pakka í gegn.“

Um það verður varla deilt, því að í Washington Post í dag segir að ráðamenn í Washington séu skelfingu lostnir yfir málinu öllu og muni samþykkja einhverja lausn. Yfir borginni allri hvíli eins og mara óttinn við að erlendir fjárfestar og þá einkum Kínverjar, fari að kippa til sín milljörðum dala út úr fjármálakerfinu. Ennþá skelfilegri en vondu húsnæðislánin séu óskráðu skuldabréfavafningarnir sem fjárfestirinn kunni, Georg Soros, hefur hvað ákafast varað við. Talið er að 45 billjónir dala af þessari framandlegu fjármálaafurð séu á ferðinni um fjármálakerfið. Skuldavafningarnir voru fundnir upp til að verjast lánatöpum en jafnvel fjármálasnillingarnir sem komu þeim í umferð eru ekki alveg vissir hvernig þeir virka né heldur hvernig á að finna út raunverulegt verðmæti þeirra..

Ótti er vondur hvati fyrir vandaða lagasetningu, segir í Washington Post, en alveg kjörinn til að knýja fram tvíhliða samstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka