Fréttaskýring: WaMu gleyptur í stærsta bankaþroti Bandaríkjanna

Washington Mutual
Washington Mutual AP

Fall Washington Mutual sparisjóðsbankans í Bandaríkjunum kom fæstum sem til þekktu á óvart. Setja má samt spurningamerki við tímasetningu yfirtökunnar þar sem hún kemur beint ofan í bakslagið í viðræðunum um björgunaraðgerðir fjármálastofnana á Wall Street. Gera má því ráð fyrir að þegar markaðurinn í New York opnar fljótlega upp úr hádeginu muni koma á daginn að honum þykir þetta hvorttveggja nokkuð stór biti að kyngja í einu og þess muni sjást merki á markaðinum.

Þrot WaMu eins og bankinn er oftast kallaður í Bandaríkjunum er hið stærsta í bandarískri bankasögu. Með alls um 307 milljarða dala eignastöðu yfirgnæfir hrun WaMu svo um munar þrot Continental Illinois National Bank með sína 40 milljarða dala árið 1984 og 32 milljarða dala þrot IndyMac sem ríkisstjórnin tók yfir í júlí sl.

Það var alríkisstofnun sú sem fer með tryggingasjóð innlánsstofnanna sem tók völdin í bankanum í gærkvöldi. Bankinn hafði þá sjálfur verið að leita fyrir sér um hugsanlega kaupendur eða samstarfsaðila, en yfirvöld voru greinilega undirbúin með neyðaráætlun sem fólst í því að J.P. Morgan Chase & Co keypti eigur bankans á 1,9 milljarða dala. Kaupin þýða að komið er í veg fyrir að þrot WaMu skerði tryggingasjóðinn þó svo það kunni að verða skammgóður vermir í ljósi þróunarinnar á markaðinum sem stefnir hraðbyri í mestu fjármálalægð frá því í kreppunni miklu.

JPMorgan færist í aukana

Hrun WaMu má eins og í öðrum slíkum tilfellum undanfarið rekja til slæmra fasteignalána sem bankinn sat uppi með ógrynni af. Vegna þeirra og annarra áhættusamra skulda hyggst JPMorgan færa niður lánasafn MaWu um 31 milljarð dala - fjárhæð sem gæti breyst ef ríkisstjórnin nær björgunaraðgerðum sínum í gegn og JPMorgan ákveður að vera hluti af þeim.

„Við styðjum aðgerðir stjórnvalda, en við treystum ekki á þær. Við hefðum gert þetta hvað sem öllu öðru líður," hefur AP eftir forstjóra JPMorgan, Jamie Dimon, sem hefur nú á skömmum tíma tekið yfir tvær fjármálastofnanir sem orðið hafa undirmálslánum að bráð. Hin var fjárfestingabankinn Bear Stearns, sem fékkst á 1,4 milljarða dala auk 900 milljóna dala greiðslu í hlutabréfum til að tryggja sér samninginn fyrirfram.

JPMorgan Chase er nú orðinn annar stærsti banki Bandaríkjanna á eftir Bank of America sem komst nýverið yfir Merrill Lynch við áþekkar aðstæður. JP Morgan er hins vegar stærsti bankinn miðað við innlán og hann hyggst bjóða út 8 milljarða dala af nýju hlutafé til að fjármagna kaupin. Þá er ljóst að hann mun loka um 10% af 5400 útibúum sameinaðra bankanna svo sem í New York og Chicago þar sem þeir hafa verið í samkeppni.

Hluthafar tapa öllu

Lokun WaMu var fyrirsjáanleg, eins og nefnt var. Matsfyrirtækið Standard & Poor lækkaði matið á bankanum sl. mánudag sem ekki jók á lífslíkur hans þar sem það bættist ofan á önnur vandræði svo sem þau að viðskiptavinir hans voru farnir að taka út sparifé sitt af miklum móð eftir að gjaldþrot Lehman Brothers lá fyrir. Bankinn var því að komast í fjárþröng.

Engu að síður mun yfirtaka stjórnvalda á WaMu hafa komið yfirstjórnendum bankans í opna skjöldu. Alan H. Fishman, forstjóri hans, er sagður hafa verið miðja vegu milli New York og Seattle í flugi þegar skrifað var undir samninginn og hann handsalaður við JPMorgan. Fishman hafði verið fenginn til að taka við af Kerry K. Killinger sem gert hafði bankann að stórveldi en teflt djarft eins og nú er komið á daginn og var látinn fara í byrjun mánaðarins. Fishman hafði því ekki verið nema þrjár vikur í starfi en getur huggað sig við ríkulega sárabót - 11,6 milljónir dala í launabætur og mun halda 7,5 milljóna dala ráðningarbónus sínum.

Sheila Bair, forsvarsmaður tryggingasjóðs innlánsstofnana, segir að gagnvart innlánseigendum og öðrum viðskiptavinum Washington Mutual Bank væri þetta eins og hver annar samruni tveggja banka. „Fyrir viðskiptamenn bankans verður þetta hnökralaust ferli. Það verður engin röskun á þjónustunni og viðskiptamenn geta vænst þess að strax á föstudag (í dag) verði starfsemin með venjulegum hætti.“

Yfirtaka ríkisins á bankanum þýðir hins vegar að hlutafjáreign hluthafa í bankanum þurrkast út. Samningurinn skilur fjárfestana - þeirra á meðal TPG Capital sem lagði 7 milljarða dala til bankans síðasta liðið vor - eftir tómhenta á hliðarlínunni.

Washington Mutual var stofnun með merkilega sögu,  upphaflega stofnaður í Seattle í Washington ríki árið 1889 til stuðnings samfélaginu þar að byggja upp borgina eftir mikinn eldsvoða. Nú hefur WaMu sjálfur orðið annars konar bruna að bráð. 119 ára sögu er lokið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK