Fréttaskýring: WaMu gleyptur í stærsta bankaþroti Bandaríkjanna

Washington Mutual
Washington Mutual AP

Fall Washingt­on Mutual spari­sjóðsbank­ans í Banda­ríkj­un­um kom fæst­um sem til þekktu á óvart. Setja má samt spurn­inga­merki við tíma­setn­ingu yf­ir­tök­unn­ar þar sem hún kem­ur beint ofan í bak­slagið í viðræðunum um björg­un­araðgerðir fjár­mála­stofn­ana á Wall Street. Gera má því ráð fyr­ir að þegar markaður­inn í New York opn­ar fljót­lega upp úr há­deg­inu muni koma á dag­inn að hon­um þykir þetta hvort­tveggja nokkuð stór biti að kyngja í einu og þess muni sjást merki á markaðinum.

Þrot WaMu eins og bank­inn er oft­ast kallaður í Banda­ríkj­un­um er hið stærsta í banda­rískri banka­sögu. Með alls um 307 millj­arða dala eigna­stöðu yf­ir­gnæf­ir hrun WaMu svo um mun­ar þrot Cont­in­ental Ill­in­o­is Nati­onal Bank með sína 40 millj­arða dala árið 1984 og 32 millj­arða dala þrot In­dyMac sem rík­is­stjórn­in tók yfir í júlí sl.

Það var al­rík­is­stofn­un sú sem fer með trygg­inga­sjóð inn­láns­stofn­anna sem tók völd­in í bank­an­um í gær­kvöldi. Bank­inn hafði þá sjálf­ur verið að leita fyr­ir sér um hugs­an­lega kaup­end­ur eða sam­starfsaðila, en yf­ir­völd voru greini­lega und­ir­bú­in með neyðaráætl­un sem fólst í því að J.P. Morg­an Chase & Co keypti eig­ur bank­ans á 1,9 millj­arða dala. Kaup­in þýða að komið er í veg fyr­ir að þrot WaMu skerði trygg­inga­sjóðinn þó svo það kunni að verða skamm­góður verm­ir í ljósi þró­un­ar­inn­ar á markaðinum sem stefn­ir hraðbyri í mestu fjár­mála­lægð frá því í krepp­unni miklu.

JP­Morg­an fær­ist í auk­ana

Hrun WaMu má eins og í öðrum slík­um til­fell­um und­an­farið rekja til slæmra fast­eignalána sem bank­inn sat uppi með ógrynni af. Vegna þeirra og annarra áhættu­samra skulda hyggst JP­Morg­an færa niður lána­safn MaWu um 31 millj­arð dala - fjár­hæð sem gæti breyst ef rík­is­stjórn­in nær björg­un­araðgerðum sín­um í gegn og JP­Morg­an ákveður að vera hluti af þeim.

„Við styðjum aðgerðir stjórn­valda, en við treyst­um ekki á þær. Við hefðum gert þetta hvað sem öllu öðru líður," hef­ur AP eft­ir for­stjóra JP­Morg­an, Jamie Dimon, sem hef­ur nú á skömm­um tíma tekið yfir tvær fjár­mála­stofn­an­ir sem orðið hafa und­ir­máls­lán­um að bráð. Hin var fjár­fest­inga­bank­inn Bear Ste­arns, sem fékkst á 1,4 millj­arða dala auk 900 millj­óna dala greiðslu í hluta­bréf­um til að tryggja sér samn­ing­inn fyr­ir­fram.

JP­Morg­an Chase er nú orðinn ann­ar stærsti banki Banda­ríkj­anna á eft­ir Bank of America sem komst ný­verið yfir Merrill Lynch við áþekk­ar aðstæður. JP Morg­an er hins veg­ar stærsti bank­inn miðað við inn­lán og hann hyggst bjóða út 8 millj­arða dala af nýju hluta­fé til að fjár­magna kaup­in. Þá er ljóst að hann mun loka um 10% af 5400 úti­bú­um sam­einaðra bank­anna svo sem í New York og Chicago þar sem þeir hafa verið í sam­keppni.

Hlut­haf­ar tapa öllu

Lok­un WaMu var fyr­ir­sjá­an­leg, eins og nefnt var. Mats­fyr­ir­tækið Stand­ard & Poor lækkaði matið á bank­an­um sl. mánu­dag sem ekki jók á lífs­lík­ur hans þar sem það bætt­ist ofan á önn­ur vand­ræði svo sem þau að viðskipta­vin­ir hans voru farn­ir að taka út spari­fé sitt af mikl­um móð eft­ir að gjaldþrot Lehm­an Brot­h­ers lá fyr­ir. Bank­inn var því að kom­ast í fjárþröng.

Engu að síður mun yf­ir­taka stjórn­valda á WaMu hafa komið yf­ir­stjórn­end­um bank­ans í opna skjöldu. Alan H. Fis­hm­an, for­stjóri hans, er sagður hafa verið miðja vegu milli New York og Seattle í flugi þegar skrifað var und­ir samn­ing­inn og hann hand­salaður við JP­Morg­an. Fis­hm­an hafði verið feng­inn til að taka við af Kerry K. Kill­in­ger sem gert hafði bank­ann að stór­veldi en teflt djarft eins og nú er komið á dag­inn og var lát­inn fara í byrj­un mánaðar­ins. Fis­hm­an hafði því ekki verið nema þrjár vik­ur í starfi en get­ur huggað sig við ríku­lega sára­bót - 11,6 millj­ón­ir dala í launa­bæt­ur og mun halda 7,5 millj­óna dala ráðning­ar­bón­us sín­um.

Sheila Bair, for­svarsmaður trygg­inga­sjóðs inn­láns­stofn­ana, seg­ir að gagn­vart inn­lán­seig­end­um og öðrum viðskipta­vin­um Washingt­on Mutual Bank væri þetta eins og hver ann­ar samruni tveggja banka. „Fyr­ir viðskipta­menn bank­ans verður þetta hnökra­laust ferli. Það verður eng­in rösk­un á þjón­ust­unni og viðskipta­menn geta vænst þess að strax á föstu­dag (í dag) verði starf­sem­in með venju­leg­um hætti.“

Yf­ir­taka rík­is­ins á bank­an­um þýðir hins veg­ar að hluta­fjár­eign hlut­hafa í bank­an­um þurrk­ast út. Samn­ing­ur­inn skil­ur fjár­fest­ana - þeirra á meðal TPG Capital sem lagði 7 millj­arða dala til bank­ans síðasta liðið vor - eft­ir tóm­henta á hliðarlín­unni.

Washingt­on Mutual var stofn­un með merki­lega sögu,  upp­haf­lega stofnaður í Seattle í Washingt­on ríki árið 1889 til stuðnings sam­fé­lag­inu þar að byggja upp borg­ina eft­ir mik­inn elds­voða. Nú hef­ur WaMu sjálf­ur orðið ann­ars kon­ar bruna að bráð. 119 ára sögu er lokið.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK