Krónan aldrei veikari

Gengisvísitala erlendra gjaldmiðla fór í hæst í 183,91 í viðskiptum í morgun og hefur vísitalan aldrei verið hærri. Þegar gengisvísitala erlendra gjaldmiðla hækkar veikist krónan og hefur krónan því aldrei verið veikari gagnvart körfu helstu mynta en í morgun. Þá hefur krónan aldrei staðið veikari gagnvart evru, en evran fór hæst í 140,96 krónur í viðskiptum í dag.

Krónan ekki veikari gagnvart dalnum frá 2002

Þá fór Bandaríkjadalur hæst í 96,80 krónur og þarf að leita aftur til vormánaða ársins 2002 til að sjá krónu jafn veika gagnvart dalnum. Gengi krónu gagnvart bresku pundi og gjaldmiðlum Norðurlandanna náði enn fremur sögulegu lágmarki í vikunni, en gengisvísitalan hefur sveiflast í grennd við vísitölugildið 180 síðustu daga. Gengi krónu hefur lækkað um ríflega þriðjung frá áramótum. Þar af nemur gengislækkun það sem af er september ríflega 12%. Gengislækkunin nemur nú tæpum3%.

Hver fellur næst?

„Það kreppuástand sem ríkir nú á alþjóðlegum fjármálamörkuðum ræður mestu um þróun gengis krónunnar. Óöryggi á fjármálamörkuðum og óttinn um hver kunni að verða næsti dómínókubburinn í röðum fjármálafyrirtækja sem lúta í gras veldur því að lánveitendur víða um heim halda að sér höndunum. Má meðal annars sjá það á gríðarlega háu vaxtaálagi á millibankamörkuðum, miðað við áhættulausa vexti, en það álag hefur ekki verið hærra en nú á síðustu áratugum.

Reyndar segja sumir sérfræðingar að lítið sé að marka millibankavexti á ýmsum stórum mörkuðum þar sem nánast engin viðskipti eigi sér stað. Skert aðgengi að erlendu láns- og lausafé hefur gert það að verkum að verulega hefur þrengst um á innlendum markaði með gjaldmiðlaskiptasamninga.

Sú staða er nú uppi að vaxtamunur hefur þurrkast út og gott betur á þeim markaði og setur það þrýsting á gengi krónu til lækkunar. Óskilvirkni íslensks gjaldeyrismarkaðar er ekki einsdæmi um þessar mundir þótt áhrifin séu ýktari hér á gengi gjaldmiðilsins," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK