Ólafur Ísleifsson, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segir að ef rétt er haft eftir efnahagsmálaráðgjafa forsætisráðherra, Tryggva Þór Herbertssyni, að stjórnvöld hér sækist ekki eftir aðgengi að lánalínum hjá Seðlabanka Bandaríkjanna, hafa þau skilið krónuna eftir munaðarlausa á víðavangi.
Þetta valdi því að krónan falli eins og steinn með skelfilegum afleiðingum fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, að því er fram kom í hádegisfréttum RÚV.
Sé þetta stefna Seðlabankans, beri ríkisstjórninni umsvifalaust að setja stjórn bankans af og gefa yfirlýsingu um að þetta sé ekki hennar stefna.
Tryggvi Þór Herbertsson, efnahagsmálaráðgjafi forsætisráðherra,
segir í Fréttablaðinu í dag að lánalínur á borð við þær sem seðlabankar
Norðurlandanna sömdu um við Seðlabanka Bandaríkjanna séu óþarfar hér. Engar upplýsingar hafa fengist frá seðlabönkum Bandríkjanna og Norðurlandanna um aðdraganda samninganna, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.