Ríkisstjórnir Belgíu, Hollands og Lúxemborgar hafa ákveðið að setja 11,2 milljarða evra inn í fjármálafyrirtækið Fortis sem hefur glímt við mikla erfiðleika að undanförnu. Forsætisráðherra Belgíu, Yves Leterme, greindi frá þessu í kvöld.
Um samstilltar aðgerðir er að ræða til þess að styrkja stöðu Fortis, sem rekur auk bankaþjónustu, tryggingafélag. Efndu ríkisstjórnir Benelúx-landanna til neyðarfundar í dag þar sem gengið var frá samkomulaginu.
Markaðsvirði Fortis dróst saman um tæpan fjórðung í síðustu viku eftir að orðrómur fór á kreik um erfiða stöðu bankans og greiðslugeta hans var stórlega dregin í efa.
Verður Fortis gert að selja allan hlut sinn í hollenska bankanum ABN Amro en Fortis tók yfir hluta bankans á síðasta ári.