Leiðtogar stjórnmálaflokkanna á Bandaríkjaþingi og ríkisstjórn George W. Bush, hafa náð bráðabirgðasamkomulagi um þær aðgerðir til björgunar fjármálalífi landsins. Nancy Pelosi, forseti þingsins, greindi frá þessu í nótt. Greidd verða atkvæði um frumvarpið á morgun.
Sagði Pelosi að munnlegt samkomulag um björgunarpakkann, sem kostar bandaríska ríkið 700 milljarða Bandaríkjadala, hefði náðst, einungis eigi eftir að ganga frá smáatriðum svo hægt verði að greiða atkvæði um það í fulltrúadeildinni á morgun og síðar í öldungadeildinni.
„Við eigum einhverja vinnu eftir við að fínpússa það en ég held að við höfum náð þessu," sagði Henry Paulson, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sem tók þátt í samningaviðræðunum í þinghúsinu í nótt.
Áætlanir fjármálaráðuneytisins miða að því að kaupa til baka lán af bönkunum og öðrum fjárfestum, einkum ótrygg húsnæðislán. Þetta verði til þess að þeir fengju laust fé, sem þá skortir tilfinnanlega nú. Í kjölfarið gætu fjármálastofnanir farið að lána á ný. Vonast er til þess að ríkissjóður geti síðar selt lánin á hæsta mögulega verði á þeim tíma.