Eiginfjárstaða fjögurra stærstu viðskiptabankanna hér á landi, þar á meðal Glitnis banka, var sterk um miðjan ágústmánuð, samkvæmt svonefndu álagsprófi Fjármálaeftirlitsins (FME), sem framkvæmt er með reglubundnum hætti. Sagði eftirlitið þá að bankarnir gætu þolað töluverð áföll, en álagsprófið miðast við stöðuna í lok júní 2008.
Álagsprófið tekur hins vegar
ekki til lausafjárstöðu bankanna, en erfið lausafjárstaða Glitnis er ástæðan
fyrir því samkomulagi sem greint var frá í dag um hlutafjárframlag ríkissjóðs
til bankans.
Álagspróf FME gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark.
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að það álagspróf sem FME gerir og birtir sýni áhrif ákveðins og verulegs álags á eignahlið bankanna, eiginfjárhlutföll og tapþol þeirra. Varðandi Glitni banka þá sé eiginfjárhlutfallið í lagi, eins og komi fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu vegna samkomulagsins sem tilkynnt var um í dag. Hins vegar hafi lausafjárstaðan farið í ólag í lok síðustu viku. Álagsprófið mæli hins vegar ekki lausafjárhlutfallið.
„Seðlabankinn fylgist með lausafjárhlutfalli bankanna og hefur sérstakar reglur þar að lútandi,“ segir Jónas. „Við fylgjumst einnig með því út frá almennu heilbrigði á samstæðugrunni og eigum töluvert samstarf við Seðlabankann um þessi mál. Það hefur verið þannig í heiminum að árferðið er mjög erfitt og það breytist mjög hratt.“