Danskir fjármálamenn óttast, að tíðindi dagsins frá Íslandi kunni að hafa talsverð áhrif á danska fjármálamarkaði og fyrirtæki. Sérfræðingar hafa lítið viljað tjá sig og segja að vegna flókinna eignatengsla milli íslenskra fyrirtækja sé erfitt að segja til um áhrifin.
Íslendingar eiga m.a. flugfélagið Sterling, fasteignafélagið Landic Property, vöruhús á borð við Magasin og Illum og stóran hlut í ölgerðinni Royal Unibrew.
Fréttavefur danska viðskiptablaðsins Børsen segir, að hagfræðingar og aðrir sérfræðingar tali afar varlega um hvaða áhrif greiðslustöðvun Stoða og erfiðleikar Glitnis muni hafa hafa í för með sér.
Haft er eftir Bjarke Roed-Frederiksen hjá Nordea, að ef íslenska hagkerfið hrynur saman muni það hafa í för með sér keðjuverkun sem nái til Danmerkur. En svo framarlega sem staðan versni ekki frá því sem nú er muni atvinnulífið væntanlega ganga sinn vanagang.
Hann bendir einnig á, að íslenska ríkið hafi engin áform um að eiga Glitni áfram og muni væntanlega reyna að selja bankann til annarra banka.
Erik Bennike hjá HSH Nordbank segir við Børsen, að eignatengsl íslensku fyrirtækjanna séu svo flókin, að erfitt sé að giska á hvaða þýðingu þessar hræringar hafi í Danmörku.
Haft er eftir Páli Benediktssyni, upplýsingafulltrúa Landic Property, að þar á bæ haldi starfsemin áfram eins og ekkert hafi í skorist þótt Stoðir, sem á 39,8% hlut í félaginu, hafi farið í greiðslustöðvun.
Landic Property var stofnað árið 2007 þegar Baugur og Kaupþing keyptu fasteignafélagið Keops. Stodir áttu þá Atlas Ejendomme. Félagið á um 500 fasteignir í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og á Íslandi sem metnar eru á 4,7 milljarða evra.