Greiningardeild Kaupþings segir, að markaðsvirði hlutafjár í Glitni sé 88% lægra nú en það var á föstudag. Kaupverð á 75% hlut íslenska ríkisins geri það að verkum að markaðsvirði eigin fjár bankans í heild verði um 800 milljónir evra. Miðað við dagslokagengi krónu í dag hafi því markaðsvirði hvers hlutar lækkað um 88% frá því að mörkuðum var lokað á föstudag.
Stoðir hf., áður FL Group, átti stærstan hlut í bankanum á föstudag eða um 29,35% skv. hluthafaskrá. Greiningardeild Kaupþings segir í ½5 fréttum sínum í dag, að markaðsvirði hlutar Stoða hafi því lækkað um 60,1 milljarð íslenskra króna. Hlutur Þáttar International, sem skráður var fyrir 5,59%, rýrni um 11,45 milljarða og hlutur Saxbygg Invest ehf. rýrni um 10,2 milljarða.
Kaupþing segir, að eftir eiginfjáraukninguna megi búast við því að eigin fé bankans muni nema um 286 milljörðum króna og því sé V/I hlutfall bankans áætlað um 0,4 eftir viðskiptin.