Hrun á Wall Street

Helstu hlutabréfavísitölur á Wall Street hrundu í dag eftir að ljóst var að Bandaríkjaþing hefði hafnað björgunarpakkanum. Lækkaði Dow Jones vísitalan um 6,98% eða 777,68 stig.  Nasdaq lækkaði um 9,14% og Standard & Poor's lækkaði um 8,52%. Er þetta mesta fall í sögu Kauphallarinnar í New York í stigum talið en það 17. mesta í prósentum.

Eftir að fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafnaði áætlun Bandaríkjastjórnar um að nota 700 milljarða dala til að bjarga fjármálakerfi landsins. Endanleg niðurstaða í atkvæðagreiðslu um frumvarpið var sú að 228 þingmenn sögðu nei en 205 sögðu já.

Segja má að Dow Jones og þróun vísitölunnar í dag segi allt sem segja þarf um þá örvæntingu sem greip um sig þegar úrslitin voru ljós í fulltrúadeildinni. Vísitalan hrundi um fleiri hundruð stig á nokkrum mínútum og í lok dags var ljóst að metlækkunin frá 17. september 2001, fyrsta dag sem kauphöllin var opin eftir hryðjuverkaárásirnar þann 11. september, var ekki lengur sú mesta í sögu vísitölunnar en þann dag lækkaði hún um  684,81 stig. Í Kauphöllinni í New York í dag hækkaði verð 162 félaga á meðan 3.073 félög lækkuðu í verði.

Verð á hráolíu til afhendingar í nóvember lækkaði um tæp 10% eða um 10,52 dali tunnan á NYMEX markaðnum í New York. Var lokaverð hennar 96,37 dalir tunnan en má vænta þess að eftirspurn eftir olíu minnki mjög á næstunni. 

Hlutabréf fjármálastofnana lækkuðu mest í dag. Meðal annars lækkaði Wachovia um 81,50% en tilkynnt var fyrr í dag að Citigroup myndi yfirtaka bankann. Citigroup lækkaði um 11,9%, bankinn National City lækkaði um 63%, Morgan Stanley lækkaði um 15,2%, JPMorgan Chase lækkaði um 15% og Bank of America lækkaði um 17,6%.

Hlutabréf Apple voru meðal þeirra sem lækkuðu mikið í dag og um tíma fór verð þeirra nálægt 100 dölum og er það lægsta gildi þeirra síðan í byrjun árs 2007. Skýrist lækkunin af því að sérfræðingur hjá Morgan Stanley lækkaði mat á  Apple-bréfum þar sem talið er að sala á vörum félagsins muni dragast saman vegna fjárhagsstöðu almennings.

Hlutabréf deCode, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar lækkuðu um 6,98% í dag og er lokaverð þeirra 0,4 dalir.

Miðlari fylgist angistarfullur með hlutabréfavísitölum falla á Wall Street.
Miðlari fylgist angistarfullur með hlutabréfavísitölum falla á Wall Street. Reuuters
Reuters
Sumar myndir segja meira en þúsund orð
Sumar myndir segja meira en þúsund orð AP
Dow Jones lækkaði um tæp 780 stig um tíma í …
Dow Jones lækkaði um tæp 780 stig um tíma í kvöld AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK