Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir vita til þess að sú hugmynd hafi verið rædd um nokkra hríð að Landsbankinn og Glitnir myndu sameinast. Geir segist ekki vita til þess að eigendur Landsbankans hafi rætt við eigendur Glitnis í dag um að bankarnir sameinist. Þetta kom fram í viðtali við Geir í Kastljósi í kvöld.
Geir segist aðspurður vita til þess að það sé hugmynd sem hafi verið í gangi um nokkra hríð en sú hugmynd hafi byggt á því að þeir gætu mæst nokkurn veginn á jafnréttisgrundvelli og samið sín á milli. Hann segir að það hefði hins vegar verið eðlilegra að slíkt hefði gerst á fyrri stigum, það er í síðustu viku eða fyrr. Ef þeir hefðu viljað fá atbeina ríkisins að slíku að hafa þá samband við stjórnvöld.