Sjálfstæð skoðun fer fram í Landsbankanum annars vegar og Straumi fjárfestingarbanka hins vegar um hvort bankarnir standi sterkar saman en hvor í sínu lagi. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er að vænta tilkynningar um niðurstöðuna í þessari viku.
Formlegar viðræður eru ekki hafnar. Meðal annars þarf að leita álits stórra lánveitenda bankanna á samrunanum og fá grænt ljós hjá þeim. Þá kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að niðurstöðu lánshæfismatsfyrirtækja sé að vænta á næstu dögum. Miklu máli skiptir hver lánshæfiseinkunn sameinaðs félags verður, til dæmis þegar sótt er um lánafyrirgreiðslu í seðlabönkum gegn veði í bankabréfum.
Samruni Landsbankans og Straums yrði til að styrkja eiginfjárgrunn, sem skiptir miklu máli nú í lausafjárkreppunni. Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson eru stórir hluthafar í báðum bönkunum.
Nýlega tilkynntu Glitnir og Byr sparisjóður um samrunaviðræður. Þá er Kaupþing að taka SPRON og Sparisjóð Mýrasýslu yfir og VBS og Saga Capital eru einnig að ræða samruna.