Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Landic Properties, segir að ómögulegt sé að segja til um framahaldið en fyrr í dag óskaði stærsti hluthafi félagsins, Stoðir, eftir greiðslustöðvun. Stoðir eiga tæp 40% í Landic. Segir hann að umtalsverð verðmæti séu fólgin í hlut Stoða í Landic en hvað verði um þann hlut viti enginn í dag.
Skarphéðinn segir að Landic muni halda sínu striki og félagið sé ekki háð Stoðum hvað varðar fjármögnun. Stoðir hafi tekið þátt í uppbyggingu Landic en Landic eigi engar kröfur á Stoðir og því muni greiðslustöðvun félagsins ekki hafa áhrif á Landic til skemmri tíma litið.