Matsfyrirtækið Fitch Rating hefur lækkað lánshæfiseinkunn íslensku viðskiptabankanna þriggja og Straums-Burðaráss og eru horfur metnar neikvæðar. Er þetta gert í kjölfar þess að íslenska ríkið lagði Glitni til nýtt hlutafé og fékk í staðinn 75% hlut í bankanum.
Á heimasíðu Fitch segir, fyrirtækið líti á aðgerðir íslenskra stjórnvalda sem beinan stuðning við bankann og hefur því lækkað svonefnda óháða einkunn Glitnis úr B/C í F.
Þá segir Fitch, að þótt íslensk stjórnvöld hafi lýst því yfir að ekki standi til að ríkið eigi hlutaféð lengi sé ólíklegt, að hægt verði að selja bankann á næstunni. Er langtímaeinkunn bankans lækkuð úr A- í BBB- með neikvæðum horfum. Þetta er gert til að endurspegla þau vandamál, sem Ísland á við að glíma og hafa áhrif á íslenska fjármálakerfið og hugsanlegan skort á nægilegu lánsfjármagni.
Fitch segir að íslenska bankakerfið hafi verið undir þrýstingi um nokkurn tíma en sýnt aðlögunarhæfni og brugðist vel við versnandi ástandi. Hins vegar hafi þörf fyrir lánsfjármagn, sem þó sé fari minnkandi hjá Kaupþingi og Landsbankanum, aukin hætta á harðri lendingu íslenska hagkerfisins og útrás á erlenda markaði, dregið úr tiltrú á bankana.
Þá segir Fitch, að þótt aðgerðum íslenskra stjórnvalda í gær sé ætlað að viðhalda stöðugleika í íslenska fjármálakerfinu þá eigi eftir að koma í ljós hvort það markmið náist. Þess vegna hafi Ficht lækkað lánshæfiseinkunnir Kaupþings, Landsbankans og Straums til að endurspegla núverandi ástand.
Einkunnir bankanna fjögurra og dótturfélaga eru eftirfarandi:
Glitnir: Langtímaeinkunn er lækkuð úr A- í BBB- með neikvæðum horfum, einkunn fyrir skammtímaskuldbindingar er lækkuð úr F2 í F3 með neikvæðum horfum og óháð einkunn er lækkuð úr B/C í F með neikvæðum horfum.
Kaupþing: Langtímaeinkunn er lækkuð úr A- í BBB með neikvæðum horfum. Skammtímaeinkunn er lækkuð úr F2 í F3 með neikvæðum horfum. Óháð einkunn lækkar úr B/C í C, einnig með neikvæðum horfum. Sömu einkunnir fær Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings í Bretlandi.
Landsbankinn: Langtímaeinkunn er lækkuð úr A í BBB með neikvæðum horfum. Þá er skammtímaeinkunn lækkuð úr F1 í F3 með neikvæðum horfum og óháð einkunn úr B/C í C með neikvæðum horfum. Sömu einkunnir fær Heritable bankinn, dótturfélag Landsbanka í Lundúnum.
Straumur Burðarás fjárfestingarbanki: Langtímaeinkunn lækkar úr BBB+ í BB+ með neikvæðum horfum. Skammtímaeinkunn er lækkuð úr F3 í B með neikvæðum horfum en óháð einkunn er áfram C/D.