Svo getur farið að lausafjárkreppan í heiminum merki endalok mikið umtalaðra fjárfestinga Íslendinga í Danmörku, segir á vefsíðu danska blaðsins Jyllands-Posten í dag. Blaðið segir að margir greinendur fullyrði að Íslendingarnir geti neyðst til að selja eignirnar til að afla sér fjár.
„En tímasetning sölunnar gæti ekki verið verri og íslensku fyrirtækin eru ekki meðal þeirra sem menn hafa mestan áhuga á," segir blaðið. „Í fyrsta lagi er árangur þeirra alls ekki glæsilegur. Í öðru lagi starfa þau í greinum sem samkvæmt hefð lenda í miklum vanda þegar hagsveiflan er niður á við.
Smásala, flugrekstur og fasteignarekstur verða illa úti þegar neysluveislan er búin og það er á þessum sviðum sem Íslendingarnir hafa einkum haslað sér völl. Oft með lánsfé sem er mjög erfitt þegar kreppa er á lánamarkaði."