Matsfyrirtækið Moody's hefur lækkað lánshæfiseinkunn Glitnis í kjölfar þess að íslenska ríkið ákvað að leggja bankanum til 84 milljarða króna hlutafé gegn 75% eignarhlut. Þá hefur Moody's tekið lánshæfiseinkunnir hinna bankanna og íslenska ríkisins til endurskoðunar og mögulegrar lækkunar.
Moody's hefur lækkað lánshæfiseinkunn sína á langtímaskuldbindingum Glitnis úr A2 í Baa2, á skammtímaskuldbindingum úr P1 í P2 og fjárhagslegan styrkleika úr C- í D. Horfur fyrir fjárhagslegan styrkleika eru neikvæðar. Í gærkvöldi lækkaði Standard & Poor's einkunn Glitnis og í dag lækkaði Fitch Ratings einkunnina og einkunn þriggja annarra banka og ríkissjóðs.
Þá tilkynnti Moody's að fyrirtækið hefði tekið einkunnir Kaupþings og Landsbankans til athugunar vegna hugsanlegrar lækkunar. Einkunn Kaupþings vegna langtímaskuldbindinga, A1 og einkunn vegna fjárhagslega styrkleika, C-, hafa verið teknar til athugunar vegna hugsanlegrar lækkunar, en Moody's staðfestir á sama tíma einkunn bankans vegna skammtímaskuldbindinga, P-1.
Lánshæfismatseinkunn Landsbankans, A2/C-, hefur verið tekin til athugunar með mögulega lækkun í
huga. Hins vegar hefur einkunn vegna innlendra og erlendra
skammtímaskuldbindinga bankans, P-1, verið staðfest, en það er
jafnframt hæsta einkunn sem gefin er af Moody's.
Að sögn Moody's endurspeglar þessi ákvörðun sífellt veikari fjárhagsstoðir íslenska bankakerfisins í ljósi skorts á lausafé um allan heim.
Þá hefur fyrirtækið einnig tekið lánshæfiseinkunnir íslenska ríkisins til endurskoðunar og mögulegrar lækkunar. Ísland hefur einkunnina Aa1 fyrir skuldabréfaútgáfu og Aa1 í landseinkunn innlána í erlendri mynt. Moody's lækkaði einkunnina síðast í maí.