Veiking krónunnar 2,6%

Gengi krónu hefur haldið áfram að lækka í morgun eftir að hafa náð sögulegu lágmarki í gær. Gengisvísitalan lokaði í 186,80 í gær og hefur gengið aldrei mælst lægra í lok dags. Gengi krónunnar hefur lækkað um 2,6% það sem af er degi og stendur gengisvísitalan í 191,65 stigum en fór hæst í 192,31 í viðskiptum í morgun.

Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að margir samverkandi þættir valda veikingu krónunnar. Dregið hefur úr trausti á fjármálamörkuðum í kjölfar atburða síðustu vikna og hverrar tilkynningarinnar á fætur annarri um að bankar í Bandaríkjunum, Bretlandi, Belgíu og Danmörku eigi í erfiðleikum með að fjármagna sig.

Þá gerði útslagið í gær að fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafnaði 700 milljarða dala björgunaráætlun  til handa fjármálakerfinu vestra sem setti ugg að fjárfestum um heim allan. Enn fremur skapaðist óvissa á hérlendum markaði í gær eftir tilkynningu um kaup ríkisins á 75% hlut í Glitni.

Stórir gjalddagar á krónubréfum framundan

„Skert aðgengi að erlendu láns- og lausafé hefur þessu til viðbótar dregið verulega úr skilvirkni gjaldeyrismarkaðar og hafa þrengingar á innlendum markaði með gjaldmiðlaskiptasamninga átt stóran þátt í veikingu krónu síðustu mánuði. Þær hafa til að mynda gert fjárfestum afar óhægt um vik að framlengja í þeim krónubréfum sem fallið hafa á gjalddaga síðustu mánuði.

Stórir gjalddagar eru framundan í næsta mánuði, en alls falla krónubréf að nafnvirði 45 ma.kr. á gjalddaga í október, þar af 29 ma.kr. á næsta mánudag. Loks má nefna að dagurinn í dag er síðasti dagur 3. ársfjórðungs, en ársfjórðungsmót hafa undanfarið verið mikill álagstími á peningamarkaði þar sem fjármálastofnanir um heim allan halda fast um allt lausafé sitt fyrir uppgjör sín, bæði í sínum heimagjaldmiðli sem í öðrum myntum," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.

Það sem af er degi nemur veltan á millibankamarkaði 23,3 milljörðum króna og gengi Bandaríkjadals er 102,07 krónur. Evran er 146,37 krónur og pundið 183,98 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK