William Fall, forstjóri Straums-Burðaráss, segir að kaup bankans á meirihluta af erlendri starfsemi Landsbankans á sviði fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfamiðlunar sé spennandi skref fram á við og stórt tækifæri fyrir Straum til að hasla sér völl á alþjóðlegum fjárfestingarbankamarkaði.
Fall sagði á blaðamannafundi Straums Burðaráss, að starfsemin, sem verið væri að kaupa félli vel að starfsemi bankans. Kaupverðið er 380 milljónir evra. Fram kom á fundinum, að lítill hluti eða 50 milljónir evra, er greiddur í reiðufé en afgangurinn með útgáfu víkjandi láns og sölu lánasafns til Landsbankans. Fall vildi ekki upplýsa hvernig þær upphæðir skiptust.
Eftir kaupin hafa eignir Straums aukist úr 6 í 7 milljarða evra og rekstartekjur, sem á síðasta ári voru 350 milljónir evra, hefðu verið um 500 milljónir í sameinuðu fyrirtæki. Fyrir kaupin var Straumur með starfsemi í 10 löndum en verður nú með starfsemi í 18 löndum. Alls munu 1150 manns starfa hjá bankanum. 17% af tekjum Straums munu hér eftir verða til á Íslandi en það hlutfall var 36% á síðasta ári. Þá mun þeim fyrirtækjum, sem Straumur fjallar um, fjölga úr 150 í yfir 1000.
Sagði Fall að bankinn yrði eftir þetta í sterkri stöðu á fjárfestingarbankamarkaði fyrir meðalstór fyrirtæki.
Fall vildi á fundinum ekki tjá sig um það hvort samruni Landsbankans og Straums, sem rætt hefur verið um í fjölmiðlum undanfarið, væri líklegri eða ólíklegri en áður. Hann sagðist ekki hafa tjáð sig um þennan orðróm og myndi ekki gera það nú en menn gætu dregið sínar eigin ályktanir.
Fall sagði, að kaupin nú tengdust ekki því umróti, sem nú er á íslenskum fjármálamarkaði heldur hefðu þessi viðskipti verið til umræðu í nokkurn tíma milli hans og forsvarsmanna Landsbankans.